Vorkoman og fermingar

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir

Á þessum tíma á hverju ári breytist takturinn í kirkjunni hér í Lágafellssókn. Það eru fyrstu vorboðarnir sem gefa nýjan takt – fermingarbörnin.
Nú er undibúningur komandi fermingarathafna genginn í garð og kominn á fullt skrið í kirkjunni. Væntanlega er það, eða verður einnig reyndin í fjölskyldum þeirra barna sem fermast. Tími eftirvæntingar og gleði.
Undanfarin mörg ár hefur tíðkast að birta nöfn barnanna í safnaðarblaðinu og bæjarblaðinu okkar, Mosfellingi. Þessi hefð hefur glatt margan manninn, nágranna, vini og fjarskylda ættingja, að sjá og gleðjast yfir að geta fylgst með að – „Já! – einmitt þessi stúlka eða drengur er að fermast“ – og geta sent þeim og fjölskyldum þeirra blessunaróskir í huganum, skeyti eða eitthvað annað.
Nú er sá tími liðinn að birting nafnanna sé heimil, því miður. Því veldur ný persónuverndarlöggjöf sem gekk í gildi á umliðnu hausti. Þar segir að upplýsingar um aðild að trú- eða lífskoðunarfélagi flokkast undir „viðkvæmar persónuupplýsingar“ sem megi aðeins birta með sérstöku samþykki viðkomandi einstaklinga og í tilfelli fermingarbarnanna, með samþykki foreldra þeirra. Hvort við í framtíðinni munum ráðast í þá framkvæmd að leita eftir og nálgast þær undirskriftir sem þetta útheimtir og hvort allir verða því hlynntir á eftir að koma í ljós.
Það eru 120 börn sem munu fermast í kirkjunum okkar, Lágafells- og Mosfellskirkju á þessu vori. Athafnirnar verða níu og verða fyrstu fermingarathafnirnar í Lágafellskirkju þann 24. mars næstkomandi kl. 10:30 og kl. 13:30.

Á næstu dögum mun safnaðarbréfið berast inn um lúguna á heimilum Lágafellssóknar, bæklingur með upplýsingum um helgihaldið, safnaðarstarfið o.fl. á komandi mánuðum, allt fram til haustsins. Í þessu blaði fylgja einnig sérstakar upplýsingar um væntanlegar fermingar ársins 2020 og skráningarblað. Athugið að safnaðarbréfinu er aðeins dreift á heimili sem leyfa „fjölpóst“.
Við viljum benda á að hægt verður að nálgast upplýsingarnar á heimasíðu kirkjunnar: www.lagafellskirkja.is.
Fyrir hönd Lágafellssóknar óska ég fermingarbörnunum og fjölskyldum þeirra til hamingju með ferminguna og daginn.

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur Mosfellsprestakalls.