Leikskólar í Mosfellsbæ í fremstu röð

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Mosfellsbær leggur sig fram við að bjóða sem besta þjónustu í öllum sínum skólastofnunum. Dagforeldrar, ungbarnadeildir, leikskóladeildir og grunnskólar veita mikilvæga þjónustu sem skiptir flestöll heimili í bænum miklu máli.
Hér verður stuttlega fjallað um þjónustuna fyrir foreldra yngstu barnanna.

Fjölgun plássa á ungbarnadeildum
Á undanförnum tveimur árum hefur verið gert sérstakt átak í þjónustu við 12 – 18 mánaða gömul börn í Mosfellsbæ. Árið 2017 opnaði fyrsta ungbarnadeildin á leikskólanum Hlíð en stefnt er að því að árið 2021 verði leikskólinn Hlíð ungbarnaleikskóli fyrir eins til þriggja ára börn. Á leikskólanum Huldubergi er ein ungbarnadeild en markmiðið er að fjölga ungbarnaplássum smám saman eða eins og þörfin kallar á.
Næsta haust verður gert ráð fyrir alls um 70 plássum á ungbarnadeildum okkar. Á ungbarnadeildunum er lögð áhersla á tilfinningalegt öryggi, umhyggju, streitulaust umhverfi og aldurshæfandi örvun. Starf leikskólanna í Mosfellsbæ er einstakt þar sem fagmennska er ávallt í fyrirrúmi. Horft er til leikskólanna okkar varðandi ýmislegt í innra starfi eins og t.d. verkefnið Leikur að læra sem er ávallt notað á fleiri og fleiri leikskólum um allt land.
Mosfellsbær hefur einnig gert þjónustusamning við sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla í Reykjavík sem tryggir pláss fyrir börn úr Mosfellsbæ.
Nú eru starfandi fjórir dagforeldrar með þjónustusamning við Mosfellsbæ og hefur verið auglýst eftir fleirum til þeirra starfa en foreldrar vilja gjarnan hafa val þegar kemur að gæslu fyrir svo ung börn. Dagforeldrar fá mikla fræðslu, upplýsingar og stuðning til að efla sig frekar í því starfi.
Foreldrar greiða sama gjald fyrir börn sín frá 13 mánaða aldri hvort sem þau eru hjá dagforeldri, á ungbarnadeild eða í almennu leikskólaplássi. Það gjald hefur lækkað um 10% sl. tvö ár.

Leikskólarnir
Í Mosfellsbæ eru átta leikskólar: Hlaðhamrar, Hlíð, Reykjakot, Leirvogstunguskóli, Höfðaberg, Hulduberg, Krikaskóli og sá nýjasti í Helgafellsskóla. Mikil fjölgun barna í bænum hefur kallað á fjölgun leikskólaplássa. Í Helgafellsskóla hefur verið brugðist við með því að hraða innritun yngri barna fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir í fyrstu.
Umhyggja starfsfólks er lykilatriði þegar kemur að starfi þessara leikskóla og daggæslu. Það er kappsmál okkar sem komum að fræðslumálum að foreldrar fái sem besta og faglegasta þjónustu fyrir börn sín. Þessi málaflokkur er stærsti málaflokkur sveitarfélagsins og er lögð mikil áhersla á gæði þjónustunnar og umgjörð starfsins. Við viljum að Mosfellsbær sé í fremstu röð hvað þessa þjónustu varðar.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar