Séra Bjarni á Mosfelli – Aldarminning

Þann 19. maí verður öld liðin frá fæðingu föður míns, séra Bjarna Sigurðssonar frá Mosfelli sem var sóknarprestur Mosfellinga í 22 ár. Hann setti sterkan svip á mannlíf sveitarinnar í sinni embættistíð og hyggst ég minnast hans í fáum orðum.

Menntavegurinn
Bjarni var Árnesingur að ætt, foreldrar hans voru bændur en móðir hans lést úr berklum árið 1930. Á þeim árum var ekki sjálfgefið að börn bænda gengju menntaveginn en honum tókst að afla fjár fyrir námskostnaði af miklum dugnaði, meðal annars stundaði hann blaðamennsku og vann við að leggja hitaveitulögnina frá Reykjum í Mosfellssveit til ört vaxandi höfuðborgar.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1942, lögfræðiprófi sjö árum síðar og embættisprófi í guðfræði árið 1954. Þá hafði hann stofnað fjölskyldu. Móðir mín hét Aðalbjörg Guðmundsdóttir,­ ættuð frá Norðfirði. Þau hófu búskap í bragga í Háteigskampinum í Reykjavík og eignuðust fimm börn.
Faðir minn tók vígslu sumarið 1954 þegar hann var kosinn sóknarprestur á Mosfelli, þangað flutti fjölskyldan og fyrsta prestsverk hans var að ausa undirritaðan vatni. Auk þess að þjóna í Lágafellssókn var hann prestur í Árbæjarsókn og Brautarholtssókn á Kjalarnesi um langt skeið og í nokkur ár í Þingvallasveit.

Nætursöngur að sumri
Árið 1954 var flest með öðrum brag í Mosfellshreppi en nú á dögum. Íbúar voru einungis um eitt þúsund, margir voru bændur og það var frekar fátítt að fólk sækti vinnu til Reykjavíkur.
Á þessum árum voru kýr á um tíu bæjum í Mosfellsdal og brúsa­pallar við sérhvern afleggjara. Foreldrar mínir ráku kúabú á Mosfelli og voru einnig með nokkrar kindur og hesta. Faðir minn sló túnin ævinlega að næturlagi og söng þá við raust til að yfirgnæfa drunurnar í ferguson-dráttarvélinni. Enn muna eldri Dalbúar söng hans sem bergmálaði í fellunum á björtum sumarnóttum.

Mosfellskirkja rís
Árið 1959 tóku safnaðarmálin í Mosfellssveit óvænta stefnu. Þá lést Stefán Þorláksson hreppstjóri í Reykjadal og samkvæmt erfðaskrá hans skyldi nota fé og fasteignir hans til að reisa kirkju á Mosfelli. Eldri kirkjan hafði verið rifin árið 1888 en kirkjuklukkan var varðveitt á Hrísbrú þar sem Stefán ólst upp.
Séra Bjarni hélt um alla þræði kirkjubyggingarinnar allt til vígsludags sem var 4. apríl 1965. Þessi einstaka saga varð kveikjan að Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness sem kom út fimm árum síðar.

Væntumþykja og hlýja
Séra Bjarni og Aðalbjörg voru gestrisin, glaðsinna og vinamörg, þau elskuðu lífið í öllum sínum margbreytileika og tóku þátt í gleði og sorgum sveitunga sinna af væntumþykju og hlýju. Faðir minn var mikill íslenskumaður og afar snjall ræðumaður, vel á 3. hundrað útfararræður eftir hann frá árabilinu 1954-1991 eru varðveitt í Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar.
Árið 1976 brugðu foreldrar mínir búi og fluttu í Kópavog. Bjarni hóf kennslustörf við guðfræðideild Háskóla Íslands, auk þess sem hann vann að doktorsritgerð um íslenskan kirkjurétt sem hann varði við háskólann í Köln árið 1985. Hann lést haustið 1991.

Sóleyjar í skurði
Þegar við systkinin vorum að alast upp á Mosfelli var það keppikefli okkar að færa pabba blóm á afmælisdegi hans. Oftast voru það fagurgular hófsóleyjar sem við fundum í einhverjum skurðinum.
Upp í huga minn koma orð úr Atómstöðinni; þegar Ugla heimsækir organistann í síðasta sinn segir hann: „Ég flyt í dag. Ég seldi húsið í gær.
Hvertu ferðu, sagði ég.
Sömu leið og blómin, sagði hann.
Og blómin, sagði ég. Hver hugsar um þau?
Blóm eru ódauðleg, sagði hann og hló. Þú klippir þau í haust og þau vaxa aftur í vor, – einhversstaðar.“

Enn kemur vor og enn verða tínd blóm handa ástvininum sem hvílir í kirkjugarði Dalsins. Það verður engum vandkvæðum bundið að finna þau blóm, hann skildi þau sjálfur eftir í hugskoti samferðarfólks síns.

Bjarki Bjarnason