Áskoranir

Vorið er að koma. Kannski er það komið? Maður spyr sig. Það er alla vega bjart yfir núna þegar þessar línur eru skrifaðar, sólin skín og fuglarnir syngja.

Núna er tíminn til að hrista aðeins upp í sér og finna sér skemmtilega áskorun fyrir sumarið. Eitthvað sem þú getur notað næstu vikur í að undirbúa og æfa fyrir. Þetta getur verið áskorun sem þú býrð sjálf/ur til. Eitthvað sem þig hefur lengi langað til að gera. Eitthvað sem þú gætir hugsanlega fengið aðra með þér í. Eða ekki. Kannski langar þig bara að gera þetta fyrir þig. Það skiptir engu máli hvað öðrum finnst um áskorunina þína. Það sem einum finnst spennandi finnst öðrum kannski tímasóun. Það sem einum finnst of létt, finnst öðrum nánast ómögulegt.

Aðalatriðið varðandi áskorunina er að hún sé spennandi og þannig að þú þurfir að gera eitthvað aukalega til þess að ná henni. Hreyfa þig meira, sofa betur, borða hollar eða æfa öðruvísi. Ef þér dettur ekkert í hug, þá er ég með eina hugmynd að áskorun. KB þrautin verður haldin 22. maí næstkomandi. Eftir rúmlega 10 vikur. Þrautin er blanda af fellagöngu, utanvegarhlaupi og fjölbreyttum þrautum sem þátttakendur þurfa að komast í gegnum á leiðinni. Það þarf að bera hluti milli staða, klifra og skríða undir gaddavír svo nokkuð sé nefnt. Þetta er þraut fyrir alla, skemmtilegast er að taka þátt með vinum eða fjölskyldumeðlimum.

Það er líka hægt að tengja áskoranir við skemmtilega viðburði í lífinu. Það verður einn slíkur í minni fjölskyldu í lok ágúst. Ég er mjög spenntur fyrir þeim viðburði og er ekki einn um það. Konan mín byrjaði í síðustu viku á áskorun sem hún tengir við það sem mun gerast í lok ágúst. Áskorunin er æfingatengd og snýst um endurtekningar og vikufjölda. Lífið er ljúft, njótum þess!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 11. mars 2021