Viltu stuðla að aukinni kolefnisbindingu með kaupum á íslensku jólatré?

Björn Traustason

Björn Traustason

Íslendingar geta lagt sitt af mörkum til að auka bindingu og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Við getum minnkað losun með því að keyra bílinn minna, nota minna plast, minnkað matarsóun og fleira. Við getum einnig stuðlað að aukinni bindingu koltvísýrings úr andrúmslofti.
Skógrækt og landgræðsla stuðla að aukinni bindingu og endurheimt votlendis stuðlar að minni losun frá mýrum. Við getum tekið þátt í ýmsum leiðum til að kolefnisjafna okkur, en sú leið sem lítið hefur verið rætt um er að stuðla að aukinni kolefnisbindingu með kaupum á íslenskum jólatrjám. Íslensk jólatré eru að mestu leyti greni og fura, en það eru trjátegundir sem binda töluvert mikið kolefni þar sem þetta eru yfirleitt hraðvaxta tegundir.
Algengt er að fyrir hvert jólatré sem keypt er séu gróðursett 30 tré í staðinn. Búast má við að 15 af þeim séu aftur tekin sem jólatré eða verði fyrir áföllum, grisjuð burt o.s.frv. Það þýðir að hin 15 ná að vaxa og verða jafnvel yfir 20 metrar á hæð þegar fullum vexti er náð eftir áratugi.
Reikna má með að meðaljólatréð sé búið að binda tæpt kíló af kolefni á vaxtarskeiði sínu. Þau tré sem plantað er í staðinn munu á vaxtarskeiði sínu binda yfir 5 tonn af kolefni. Með kaupum á íslensku jólatré er því verið að stuðla að framtíðar kolefnisbindingu upp á a.m.k. 5 tonn kolefnis! Meðalstór fjölskyldubíll sem ekinn er 17.000 km á ári losar 2150 kg af koltvísýringi út í andrúmsloftið á hverju ári og samsvarar það 580 kg af hreinu kolefni út í andrúmsloftið. Þetta þýðir að kaup á einu jólatré stuðlar að framtíðar kolefnisbindingu á við 9 ára akstur bíls!
Að sjálfsögðu eru margir óvissuþættir í þessu reikningsdæmi, en það er hins vegar engin óvissa falin í því að þú getur farið út í Hamrahlíðarskóg, keypt þér í íslenskt jólatré og stuðlað þannig að bindingu kolefnis til framtíðar. Er það ekki flott jólagjöf?
Jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar hefst sunnudaginn 9. desember kl. 13 með opnun jólaskógarins í Hamrahlíð. Hvetjum við alla til að mæta og taka þátt í skemmtuninni – og að sjálfsögðu að kaupa íslenskt tré úr skóginum.

Jólakveðja, Björn Traustason
Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar