Skýrar áherslur í fræðslumálum

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

17% aukning fjármagns á milli ára

Mosfellsbær er fjölskylduvænn bær og eftirsóknarverður til búsetu. Fjárhagsáætlun 2019 – 2022 ber þess merki að við mætum nú nýjum áskorunum og bætum verulega í svo skólar Mosfellsbæjar geti veitt sem allra besta þjónustu. Á það við leikskóla, grunnskóla og frístundaselin. Nú erum við að uppskera og verður starfsfólki og stjórnendum seint fullþakkað að hlúa vel að stofnunum Mosfellsbæjar.

Aukið fjármagn til skólanna og stoðþjónustan bætt
Í heild er áætlað að fjárframlög vegna fræðslumála á árinu 2019 nemi um 50% af útgjöldum bæjarfélagsins til málaflokka og er aukningin um 17% á milli ára og mikil áhersla lögð á að bæta stoðþjónustuna.
Í skólastefnu Mosfellsbæjar kemur fram að öll börn eigi að fá nám við hæfi í leik- og grunnskólum en foreldrar hafi einnig val um sérskóla. Á síðasta skólaári fór af stað verkefni í Lágafellsskóla þegar Fellið var sett á laggirnar. Markmið þess verkefnis er að mæta þörfum barna sem eiga við tilfinninga- og hegðunarvanda að etja auk námserfiðleika.
Nú í haust fóru af stað sambærileg verkefni í Varmárskóla sem hlotið hafa heitin Atómstöðin, Gerpla og Heimsljós. Hlutverk þessara þriggja úrræða er ólíkt en öll hafa þau að markmiði, líkt og Fellið, að mæta þörfum barna á námi við hæfi. Áfram verður stutt við uppbyggingu og þróun á þessum úrræðum innan skólanna. Einnig hefur verið lögð áhersla á að bæta skólabrag og bæta þannig líðan nemenda.
Um 11% barna í leikskólum Mosfellsbæjar eru af erlendum uppruna og um 9% í grunnskólum. Í Varmárskóla er kominn vísir að nýbúadeild og verður haldið áfram að styðja við þá þróunarvinnu sem þar á sér stað undir stjórn fagfólks.

Helstu áherslur í fjárhagsáætlun 2019 – 20122
• Skólastefna Mosfellsbæjar endurskoðuð
• Stoðþjónustan efld
• Upplýsinga- og tæknimál í grunn- og leikskólum verði áfram efld
• Fjölgað um stöðugildi í Listaskólanum til að sinna kennslu úti í grunnskólunum
• Hefja rekstur í fyrsta áfanga Helgafellsskóla í ársbyrjun.

Leikskólagjöld lækka
Í fjárhagsáætlun 2019 er áfram bætt við dagvistunarþjónustu fyrir yngstu bæjarbúana með því að bæta við 20 plássum á ungbarnadeildum Hlíðar og Huldubergs.
Í fjárhagsáætlun 2018 lækkuðu dagvistargjöldin fyrir yngstu börnin þannig að frá og með 13 mánaða aldri greiða foreldrar samkvæmt gjaldskrá gildandi leikskólagjalds óháð því hvort að barnið sé í leikskóla á vegum Mosfellsbæjar, einkareknum leikskóla eða hjá dagforeldri. Almenn gjaldskrá leikskóla mun lækka um 5% frá hausti 2019.

Um nýjan Helgafellsskóla
Að lokum er mikilvægt að minnast á nýjan grunnskóla í Helgafellshverfinu. Fyrsti áfangi skólans verður tekinn í notkun um næstu áramót en þá hefja 1.-5. bekkur nám við skólann auk einnar deildar í leikskóla þar sem eru 5 ára börn. Árið þar á eftir verður skólinn fyrir 1.–6. bekk og heldur þannig áfram upp í 10. bekk. Við upphaf skólaársins 2019-2020 er áætlað að annar áfangi byggingarinnar verði tilbúinn.
Það er bjart framundan og Mosfellsbær að stækka og blómstra sem aldrei fyrr. En hér hefur aðeins verið nefndur hluti af þeim góðu verkefnum sem framundan eru. Höldum áfram að hlúa að því sem okkur er kærast.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar