Njótum samverunnar
Nú nálgast jólin óðfluga og aðventan er rétt handan við hornið. Flestir virðast sammála um að það besta við þessa hátíð ljóss og friðar sé samvera með fólkinu sem maður elskar.
Fólk fer ýmsar leiðir til að njóta samvistanna, skreyta, baka, borða góðan mat, spila, leika sér úti og svo mætti lengi telja.
„Samverudagatal“
Hvernig væri t.d. að gera dagatal fyrir þessi jól sem snérist um leiki, hreyfingu og samveru fjölskyldunnar? Leyfa öllum í fjölskyldunni að taka þátt í gerð þess í sameiningu og síðan fengi hver og einn að vera með einn dag sem kæmi hinum á óvart?
Hægt væri að hafa vasaljósagöngu, skautaferð, spilakvöld, baksturkvöld, kósýkvöld, stjörnuskoðun og ýmislegt fleira spennandi í dagatalinu. Dagatal sem þetta þarf ekki að kosta krónu en það er alveg klárt að það skapar skemmtilegar samverustundir og dýrmætar minningar.
Samvera í jólapakkann?
Það er um að gera að huga tímanlega að jólagjöfum svo það sem á að gleðja skapi ekki streitu hjá þeim sem gefur. Ef við ætlum að kaupa jólagjafir þá er sjálfsagt að versla eins mikið í heimabyggð og hægt er og svo má líka hugsa hvort maður geti búið til jólagjafir sjálfur.
Margir eiga nóg af öllu og þá er spurning hvort gjafakort á upplifun af einhverju tagi sé ekki málið? Og hvað með samveru í jólapakkann?
Ég minnist þess t.d. með hlýju þegar við fengum gjafakort upp á kvöldverðarboð með heimagerðu lasagna frá syni okkar, það var toppurinn þau jólin!
Verum meðvituð um hvað við þurfum og reynum að vera nægjusöm og hófstillt. Aðventan og jólin eiga að snúast um samveru, vináttu og kærleik. Hlúum að því og þá erum við að gefa okkur sjálfum og fólkinu í kringum okkur bestu gjafirnir sem hægt er að hugsa sér. Njótum samverunnar.
Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ