Viltu ekki bara spila á þetta?

Þegar ég var 6 ára fóru ég, mamma og móðursystir mín á fund Birgis skólastjóra til að finna hljóðfæri fyrir mig að spila á. Ég átti þegar að baki heils árs feril í blokkflautuleik og það var kominn tími á að glíma við nýtt hljóðfæri.
Mamma hafði heyrt svo vel látið af lúðrasveitinni að hún vildi endilega skrá mig í hana. Við spjölluðum saman og svo fórum við niður í kjallara að skoða hljóðfærin. Eftir dágóða stund við að prófa öll hljóðfærin og ræða um þau spurði Birgir mig hvaða hljóðfæri ég vildi velja. Spurningin kom flatt upp á mig og ég var ekki tilbúin með neitt svar. Svo ég horfði á móðursystur mína sem er fiðluleikari og sagði „bara fiðlu“ (ég gæti þá alla vega gert henni til geðs því ekki hafði ég hugmynd um hvað mig langaði til að læra á).
Svarið vakti væntanlega upp blendin viðbrögð þótt ég geti ekki sagt að ég muni eftir þeim. En í dag get ég alla vega sett mig í spor móður minnar og ímyndað mér að þetta hafi verið mátulega vandræðalegt.

Birgir vissi hvað hann var að gera
Ég stundaði fiðlunám, kannski ekki af miklu kappi en mætti þó í tíma reglulega.
Þegar ég var 10 ára gömul stakk mamma upp á því að ég bætti við mig hljóðfæri og fari aftur niður í lúðrasveit og athugi hvort ég geti ekki fengið að læra á klarinett eða þverflautu (takið eftir því að hún stakk upp á ákveðnum hljóðfærum svo við lentum ekki aftur í sama fíaskói og síðast!).
Ég fór sjálf á fund Birgis inni á skólastjóraskrifstofunni hans. Það var nú ekki oft sem ég kom inn á þessa skrifstofu og maður bar ómælda virðingu fyrir skrifstofunni og skólastjóranum. Birgir sagði að því miður væri ekki laust á þverflautu eða klarinett en spurði svo hvort ég vilji ekki bara spila á þetta, dró upp risastóran kassa og ofan í honum var risastórt málmblásturshljóðfæri sem ég lærði þá að heitir básúna.
Nú var þetta kannski ekki beint það sem ég hafði í huga. Hinar stelpurnar spiluðu nú flestar á settlegri hljóðfæri, klarinett og þverflautu t.d. og kannski trompet. En sitjandi inni á skrifstofu skólastjórans, með hinn háheilaga skólastjóra fyrir framan mig, þá var kannski ekki mikið annað í stöðunni en að jánka og taka við ferlíkinu. Mamma fékk nett áfall að sjá mig koma skjögrandi heim með dýrgripinn.
En ég hef ekki séð eftir þessu í eina mínútu. Birgir vissi nákvæmlega hvað hann var að gera. Mér leið ýmist sem prinsessu eða Öskubusku þarna í öftustu röðinni með strákunum (það vantaði kannski örlítið upp á samviskusemina hjá sessunautum mínum svo utanumhald nótna hvíldi ögn meira á mér en þeim).
Ég spilaði nánast óslitið í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar þar til ég varð 23 ára gömul og útskrifuð með B.Mus gráðu í básúnuleik úr Listaháskóla Íslands.

Skólahljómsveitin mikil uppeldisstöð
Það er nefnilega ekkert betra en að spila í lúðrasveit. Ég áttaði mig ekki á því til fulls fyrr en ég var sjálf orðin fullorðin hversu góður skólahljómsveitarstjóri Birgir D. Sveinsson var. Þá er ég ekki að tala um þann part sem felst í að sveifla sprotanum (þótt hann hafi líka staðið sig vel í því).
Hann hafði náttúrulega mikið forskot á aðra skólahljómsveitarstjóra að vera einnig skólastjóri grunnskólans. Hljómsveitin var mikil uppeldisstöð og ég á Birgi að þakka margt þegar kemur að félagslegri færni og samspili. En í hljómsveitinni voru alls konar krakkar. Sum börn voru send af foreldrum sínum (í tvígang!) í hljómsveitina því þeir vissu að þar væri unnið gott starf.
Önnur voru reglulegir gestir á skrifstofu skólastjóra og Birgir vissi að reglulegir spilatímar og hljómsveitaræfingar myndu hafa góð áhrif á þau. Enn önnur áttu erfitt með að fóta sig í skólaumhverfinu og þurftu griðastað.
Öll unnum við saman í hljómsveitinni sem skapaði skemmtilega og litríka heild. Það krefst mikillar vinnu, útsjónarsemi og innsæis að skapa jafn stóra og samheldna sveit ólíkra barna og Birgi tókst að gera.
Það er gaman að líta til baka á það magnaða starf sem Birgir hefur unnið núna þegar 60 ár eru liðin frá því hann stofnaði Skólahljómsveit Mosfellsbæjar og hann sjálfur nýorðinn 85 ára gamall. Megi hugsjónir Birgis lifa önnur 60 ár hið minnsta hér í Mosfellsbæ.

Barnadjasshátíð í sumar
Í starfi mínu sem framkvæmdastjóri tónlistarhátíðinnar Barnadjass í Mosó, sem haldin verður í annað sinn nú í sumar, hef ég haft ár mín í Skólahljómsveit Mosfellsbæjar í huga.
Í ár munum við halda opið tveggja daga námskeið ætlað börnum á aldrinum 8-15 ára sem hafa áhuga á að prófa að spila djass eftir eyranu og spinna. Endilega fylgist með á www.facebook.com/Barnadjass þar sem allar upplýsingar munu verða birtar.

Guðrún Rútsdóttir