Vilja opna á umræðuna og nálgast verkefnið í kærleika
Einar Darri Óskarsson lést á heimili sínu í Hvalfjarðarsveit þann 25. maí síðastliðin. Einar Darri var aðeins 18 ára gamall en dánarorsök hans var lyfjaeitrun vegna neyslu á lyfinu OxyContin.
Fjölskylda og vinir Einars Darra hafa stofnað minningarsjóð í hans nafni sem ætlaður er fyrir ýmis forvarnaverkefni og varpa ljósi á þann allsherjar vanda sem misnotkun á lyfjum er hér á landi og þá sérstaklega á meðal ungmenna, allt niður í nemendur í grunnskóla.
Opna umræðuna um hættuna
„Við ákváðum fljótlega eftir fráfall Einars Darra, þegar við áttuðum okkur á hve neysla lyfseðilskyldra lyfja væri stórt og alvarlegt vandamál meðal ungmenna, að stofna minningarsjóð í hans nafni,“ segir Mosfellingurinn Óskar Vídalín, faðir Einars Darra.
„Við vissum ekki hvert þetta myndi leiða okkur, en vildum nálgast þetta stóra verkefni í kærleika en ekki í reiði eða í leit að sökudólgi, því að Einar Darri var afskaplega kærleiksríkur drengur. Við viljum opna á umræðuna um hversu skaðleg, ávanabindandi og líshættuleg þessi lyf eru og hversu algeng misnotkunin er.“
Aukin kvíði ungmenna
Mosfellingurinn Andrés Kári Kristjánsson, æskuvinur Einars Darra, segir að mikið sé að breytast í neyslumynstri ungmenna og að notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum sé eins konar faraldur. „Þegar ég var yngri og fékk forvarnafræðslu þá var talað um alls konar eiturlyf en ekkert minnst á þessi kvíða-, verkja- og róandi lyf.
Ég held að kvíði meðal ungmenna sé að aukast með pressu frá samfélagsmiðlum og samfélagið gerir kröfur á að maður sé með háleit markmið. Tónlistin er líka mikill áhrifavaldur og eru margir textar sem fjalla um neyslu og sölu á ýmsum efnum.“
Ég á bara eitt líf
Minningarsjóðurinn stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif og stendur fyrir ýmsum forvarnagildandi verkefnum.
„Við erum með starfandi skipulagshóp með meðlimum frá ýmsum starfsstéttum í samfélaginu og breiðum aldurshópi. Við eigum það sameiginlegt að vilja öll láta gott af okkur leiða. Öll verkefnin eru unnin af fagmennsku og með kærleika í fyrirrúmi.
Núna eru til rannsóknar hjá Landslæknisembættinu andlát 29 einstaklinga vegna gruns um misnotkun á lyfjum. Á bak við hvern einstakling er fjölskylda og vinir sem standa eftir í sorg,“ segir Óskar.
Verða sýnileg á bæjarhátíðinni
Gefið hefur verið út myndband þar sem fjölskylda og vinir Einars Darra koma fram. Myndbandið hefur vakið mikla athygli en það gengur út á að fræða ungt fólk um hættuna sem fylgir notkun róandi og ávanabindandi lyfja. Framleidd hafa verið armbönd með áletruninni Ég á bara eitt líf, peysur og húfur allt í neonbleikum lit sem var uppáhalds litur Einars Darra. Hópurinn hefur verið áberandi á ýmsum útihátíðum í sumar og hátt í tvö hundruð manns hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Minningarsjóðnum.
Hópurinn verður sýnilegur á bæjarhátíðinni Í túninu heima en þeim sem vilja kynna sér málið betur er bent á facebook-síðuna Minningarsjóður Einars Darra og þeim sem vilja leggja sjóðnum lið er bent á reikning sjóðsins. Kennitala: 510718-1510 Reikningsnúmer: 552-14-405040.
—-
Markmið baráttunnar:
- Sporna við og draga úr misnotkun fíkniefna, með áherslu á lyf.
- Opna umræðuna um misnotkun lyfja hér á landi.
- Auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar lyfja.
- Opna umræðu um vöntun á bættum meðferðarúrræðum.