Við förum í fríið

Ljósin á ströndu skína skær
skipið það færist nær og nær
og þessi sjóferð endi fær.
Ég búinn er að puða og púla
pokann að hífa og dekkin spúla.

Við erum búin að standa okkur vel í kóvidinu, Íslendingar. Höfum haft þolinmóða, mannlega og öfluga leiðtoga sem hafa stýrt okkur í gegnum þessa sjóferð, ég held við getum öll verið sammála um það. Nú erum við að detta í langþráð frí. Sumarfrí. Maður skynjar mikla tilhlökkun í mörgum, eðlilega. Ég er sjálfur spenntur fyrir því að fara í frí og ætla að njóta þess með mínu fólki. Ég ætla að leggja sérstaka áherslu á að njóta þess smáa og einfalda sem fríið mun bjóða upp á, er ekki með stór markmið sem ég ætla að ná í fríinu. Þetta er samt ekki einfalt, það er svo margt sem maður vill gera, upplifa og framkvæma. Markmið sem maður vill ná. En ég er alltaf að skilja betur að það er ferðalagið sjálft sem skiptir mestu máli, ekki áfangastaðurinn eða lokatakmarkið.

Við vorum með litla frænku í pössun um helgina. Við fórum tvö saman í tímalausan göngutúr meðfram Varmánni, fylgdumst með fiðrildum, bjuggum til lúpínublómvönd, skoðuðum Álafoss og prófuðum ýmsa leikvelli sem urðu á vegi okkar. Áfangastaðurinn var Varm­árvöllur þar sem lið fólksins, Hvíti riddarinn, átti leik, en við pældum ekkert í honum á leiðinni, heldur nutum við augnabliksins, ferðalagsins sjálfs. Og ferðalagið varð miklu betri upplifun en leikurinn sjálfur. Hann má gleymast fljótt.

Ég ætla að hafa þetta í huga í sumar þegar við förum að ferðast um landið. Að njóta þess að vera á ferðinni, taka eftir hlutum í kringum mig, stoppa ef við sjáum eitthvað sem við viljum skoða betur og spá í. Ekki bara tæta frá A til B ómeðvitaður um allt sem ferðalagið býður upp á.
Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. júní 2021