Ritskoðun í Rusllandi

Sveinn Óskar Sigurðsson

Enn er talsvert fjör í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og nýsköpun bætist við annars talsverða listsköpun forseta bæjarstjórnar í gegnum árin.
Í upphafi ársins 2021, nánar tiltekið 27. janúar, var tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi nr. 775 mál er sneri að brunanum í SORPU 8. janúar þegar landsins stærsta gúanó, þ.e. hann Gýmir blessaður, kviknaði bókstaflega til lífsins. Um atburðarrásina segir í gögnum frá SORPU: ,,Aðfaranótt föstudagsins 8. janúar 2021 kom upp eldur í aflögðum móttökustað lífræns- og lyktarsterks úrgangs, Gými. Orsök brunans er sjálfsíkveikja þar sem eldur kviknaði í (lífrænum úrgangi), greinum, timbur- og dekkjakurli sem notað var sem yfirlag, ásamt því að komast í „lausarusl“ sem losað er í nágrenninu, og varð af mikið eldhaf.“
Byggðasamlagið SORPA, sem hefur gengið í gegnum fjárhagslegar hremmingar, hvorki náð að framleiða nothæfa moltu né koma Gas- og jarðgerðarstöðinni (GAJA) nægjanlega vel í gagnið leitaði þá á náðir annars byggðasamlags á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins. Það var gert til að berja Gými til hlýðni enda ekki vitað hvað hann vildi upp á dekk. Það tókst með tilsvarandi umhverfisspjöllum í formi mengunar sem stafaði af litríkum strókum er stóðu upp úr Gými rétt áður en í honum var slökkt.
Þessi áformaða „yfirtaka“ Gýmis á SORPU er líklega ein sú heiðarlegasta sem gerð hefur verið frá sveitarstjórnakosningunum árið 2018. Frá þeim tíma hefur forstjóra SORPU verið vikið úr starfi til að auðveldara yrði að draga fjöður yfir skelfileg mistök stjórnar SORPU, skilnings- og aðgerðarleysi svo árum skiptir.
Sökum þessa lagði greinarhöfundur fram eftirfarandi bókun á framangreindum fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar: „Enn og aftur áréttar bæjarfulltrúi Miðflokksins að stjórn SORPU á að segja af sér. Sífellt eru að skapast vandræði í kringum þetta mikilvæga byggðasamlag. Hefur stjórn þessa samlags ekki sætt ábyrgð varðandi sóun, mengun og úrræðaleysi á mörgum sviðum í rekstri. E
innig virðist fulltrúi Mosfellsbæjar fara með fleipur um ákveðin mikilvæg mál er SORPU varðar er m.a. tengjast gjaldskrá og rekstur almennt. Fundagerðir eru illa unnar, ekki upplýsandi og vart hægt að sjá mun á fundargerð og dagskrá funda. Við framangreint hefur nú bæst við stórbruni, sem er mjög alvarlegt atvik og hefur örugglega ekki bætt loftgæði í Mosfellsbæ og þar með á höfuðborgarsvæðinu.“
Við tók eitt af lengri fundarhléum sem meirihlutinn í Mosfellsbæ hefur tekið. Kemur það greinarhöfundi spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að á meðal þeirra er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, þ.e. forseti bæjarstjórnar, sem segir sig vera skáld. Það kom loksins á daginn að „hæfileikarnir“ komu að gagni.
Lausn forseta bæjarstjórnar var þessi og færð til bókar undir þeim dagskrárlið er fjallaði um sorpbrunann við bæjardyr Mosfellinga: „Bæjarfulltrúi M-lista óskaði eftir að leggja fram tvær bókanir. Fundarstjóri bauð bæjarfulltrúa að stytta eða breyta bókunum sem var hafnað af hálfu bæjarfulltrúa M-lista. Fundarstjóri hafnaði bókununum.“
Hið rétta er reyndar að fulltrúi Miðflokksins lagði fram eina bókun og aðra til að leita sátta en báðum var hafnað. Efnislega voru þær eins. En það er þessi nýsköpun sem heillar, þ.e. hin frumstæða ritskoðun reiðinnar.
Gleðilegt sumar.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ.