Varmárósar og friðlýsing Leirvogs

Anna Sigríður Guðnadóttir

Samfylkingin í Mosfellsbæ hefur á stefnuskrá sinni að friðlýsa Leirvoginn vegna mikilvægis svæðisins fyrir fugla og vegna fjölbreyttra vistgerða á svæðinu. Nú þegar friðlýst svæði Varmárósa hefur verið stækkað virðist sem jarðvegur sé að skapast til að við málinu verði hreyft.
Varmárósar eru hluti af stærra svæði, Leirvoginum, sem er mikilvægur í alþjóðlegu samhengi sem áningarstaður margæsa og sendlings. Náttúrufræðistofnun hefur gefið það út að Leirvogurinn og Blikastaðakró séu verðmæt svæði í þessu tilliti og beri að líta á voginn og Varmárósa sem eitt svæði. Friðlýsing Leirvogsins er því eðlilegt og skynsamlegt næsta skref.
Verðmæti og verndargildi þessa svæðis er óumdeilt. Það er annar tveggja vaxtarstaða fágæts sefs, fitjasefs, sem er á válista Náttúrufræðistofnunar, auk þess sem svæðið er mikilvægt vistkerfi fyrir fugla. Friðlýsing Varmárósa felur í sér að rannsóknir og vöktun á lífríki svæðisins verða tryggð með áherslu á plöntuna fitjasef, búsvæði hennar og þær vistgerðir votlendis, strandlendis og fjöruvistgerða sem er að finna á svæðinu. Henni er einnig ætlað að treysta útivistar-, rannsóknar- og fræðslugildi svæðisins. Þess misskilnings hefur nefnilega gætt að friðlýsingar þýði bann við umferð manna um friðlýst svæði. Því fer fjarri. Friðlýsingum er beitt til að vernda svæði og náttúrufyrirbrigði til að þeirra megi njóta á ábyrgan og sjálfbæran hátt til framtíðar þannig að vistkerfi plantna og dýra raskist ekki.

Þórunn Sveinbjarnardóttir

Umræður um friðun Leirvogs og Blikastaðakróar í samstarfi við Reykjavíkurborg hafa farið fram í umhverfisnefnd Mosfellsbæjar og sameiginlegur starfshópur skipaður fulltrúum frá Mosfellsbæ, Reykjavík og Umhverfisstofnun hefur verið myndaður um málið. Auka þær umræður bjartsýni okkar á að hafinn verði undirbúningur að því þarfa verkefni að friðlýsa voginn. Þar mun Samfylkingin leggja sitt lóð á vogarskálarnar.
Leirvogurinn er vin á höfuðborgarsvæðinu. Hann er umkringdur þéttbýli að stórum hluta og norðan við hann er er iðnaðarstarfsemi Sorpu. Mosfellsbær hefur enn á sér yfirbragð sveitar í borg og það yfirbragð er almenn sátt um í bænum. Hingað sækja aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins til að njóta náttúrunnar til fjalls og fjöru. En þau lífsgæði að geta brugðið sér örstuttan spöl til að upplifa ósnerta náttúru er okkar að vernda og verja fyrir komandi kynslóðir.

Eftir Önnu Sigríði Guðnadóttur bæjarfulltrúa og Þórunni Sveinbjarnardóttur fv. umhverfisráðherra
sem leiðir lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í haust.