Verum stórhuga í menningarmálum
Sögukvöldið í Hlégarði þann 30. mars síðastliðinn fór fram úr okkar björtustu vonum, sjálfur var ég þó sannfærður um að við gætum fyllt Hlégarð af Mosfellingum ef við hefðum eitthvað áhugavert fram að færa.
Saga Mosfellsveitar er stórmerkileg og við bæjarbúar ættum öll að vera henni kunnug. Mikið af heimildum eru til staðar bæði í Héraðsskjalasafninu sem og á heimilum fólks í bænum.
Því langar mig að benda bæjarbúum sem eiga myndir eða muni frá gamalli tíð að hafa samband við Birnu Mjöll á Héraðsskjalasafninu og hún kemur því í örugga geymslu.
Umtalsefnið þetta kvöld var heita vatnið og ylræktin og annað sem því tengist, þetta er aðeins smá brot af sögunni okkar. Hægt væri að halda mörg svona kvöld næstu árin til að rekja hana og er ekki ólíklegt að það verði gert.
Í Hlégarði þetta kvöld var húsfyllir en ríflega 200 manns mættu til að hlýða á erindin. Það telst vera vel sótt en samt sem áður er þetta aðeins um 1,5% bæjarbúa.
Þegar Hlégarður var vígður 17. mars árið 1951 voru sveitungar um 500 manns og ber bygging hússins því gott merki hvað menn voru stórhuga í þá daga. Talið er að á opnunarhátíðina hafi 400-500 manns mætt. Væri ekki draumurinn að geta verið með viðburði í bænum sem myndi hýsa stærri hluta bæjarbúa, kannski 10% eða um 1.400 manns?
Svæðið í kringum Hlégarð býður upp á allskonar möguleika til stækkunar og hafa þegar komið fram hugmyndir frá Vinum Mosfellsbæjar þess efnis.
Ég, sem áheyrnarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar í menningar- og lýðræðisnefnd, vil áfram leggja mitt af mörkum til framgangs menningarmála í bænum okkar og vil að við hugsum stórt þegar kemur að því að skipuleggja framtíðina.
Kristján Erling Jónsson
Vinur Mosfellsbæjar