Mannleg samskipti fram yfir símana

Halla Heimis

Þetta er setning sem ég nota í kennslu hjá mér, oftast virða þau það og við tölum um hversu mikilvægt það er að geta hlustað á hvert annað og hvílt símana á meðan.
Það þarf ekki að segja það hér að „síminn getur eitrað sálina“ við vitum það öll. Við vitum að þetta tæki hefur áhrif á kvíða, einmanaleika og hefur neikvæð áhrif á sjálfsmynd fólks, ekki bara barna og unglinga heldur einnig fullorðins fólk.

Nemendur okkar í FMOS eru hluti þeirrar kynslóðar sem hefur alist upp við símanotkun og það að taka upp síma og hringja til að panta tíma í klippingu eða pizzu, hvað þá að mæta á staðinn til að sækja um vinnu er mjög mikið vandamál hjá mörgum og það er áhyggjuefni.
Við viljum að nemendur okkar tali saman í frímínútum og höfum við því aukið afþreyingu fyrir þá. Hvað höfum við gert? Við keyptum körfuboltaspjald, körfubolta og fótbolta í skotið okkar, við límdum „gamaldags“ borðspil á nokkur borð í anddyrinu, taflborð, badmintonspaða og borðtennisborð.
Er þetta að bera árangur? Já, heldur betur! Það er mjög góð tilfinning þegar gengið er um skólann að sjá borðin þéttsetin af nemendum sem eru búnir að búa til alls kyns nýjar reglur í lúdó og slönguspili, hugsandi nemendur við taflborðin, mikla keppni í borðtennis, keppni í að halda flugunni á lofti í badminton og aðrir að fá sér súrefni og spila körfubolta. Þetta gerir það að verkum að skólabragurinn verður annar og maður heyrir hlátur og samtöl í staðinn fyrir þögnina.
Við fullorðna fólkið þurfum að vera fyrirmyndir og auka afþreyingu sem hvetur til samskipta og á meðan er síminn í hvíld.

Halla Heimis.
íþrótta- og lýðheilsufræðingur hjá FMOS