Vélsmiðjan Sveinn fagnar 30 ára afmæli
Vélsmiðjan Sveinn sem staðsett er í Flugumýri 6 heldur upp á 30 ára afmæli um þessar mundir.
Það voru þeir feðgar Haraldur Lúðvíksson og Haraldur V. Haraldsson sem stofnuðu fyrirtækið í lok ágúst 1993. Fyrirtækið sérhæfir sig í allri almennri vélsmíði, stálsmíði, rennismíði, viðgerðum og þessháttar. „Við feðgar störfuðum hér saman þar til árið 2003 en þá féll pabbi frá og skildi mig eftir í súpunni,“ segir Haraldur hlæjandi eða Halli eins og hann er alltaf kallaður.
Redda öllu sem þarf að redda
„Fyrirtækið hefur vaxið og dafnað á þessum 30 árum og það má eiginlega segja að okkar sérstaða er að við reddum öllu. Við erum mjög vel tækjum búnir og verkefnin okkar eru mjög fjölbreytt. Ég er að vinna fyrir mörg stór fyrirtæki, minni fyrirtæki og einstaklinga.
Við erum þekktir fyrir að ganga í öll verk og leysa úr málum sem koma upp, ég er oft fengin með á verkfundi til að hanna lausnir og þess háttar, ég er vel tengdur í þessum bransa og með mikið af góðu fólki í kringum mig.
Við erum með frábært starfsfólk en erum jafnframt að leita fleira fólki í vinnu.“ segir Halli en þess má geta að hann hefur hefur einnig starfað mikið erlendis.
Vegglistaverk á girðingu
Vélsmiðjan Sveinn stendur á hornlóð við fjölfarna götu og verkleg girðing er í kringum fyrirtækið. Margir Mosfellingar hafa sjálfsagt tekið eftir nýlegu listaverki á girðingunni sem lífgar uppá hverfið.
„Eina kvörtunin sem við höfum fengið frá nágrönnum í gegnum tíðina er að þessi veggur eða girðing hafi verið ljót þess vegna langaði okkur að gera eitthvað skemmtilegt. Þessi hugmynd er búin að vera að gerjast með okkur í 5 ár. Ólína konan mín fann svo þenna frábæra listamann hana Kareni Ýr sem sérhæfir sig í vegglist.“
Gjöf okkar til fyrirtækisins
„Við erum rosalega ánægð með útkomuna, hún Karen fékk frjálsar hendur varðandi myndefnið og þótti okkur vænt um hvað hún náði að flétta inn í verkið hlutum sem tengjast okkur eins og tannhjól, manni við járnsmíði og svo fallegri náttúru.
Þetta listaverk er okkar gjöf til fyrirtækisins á 30 ára afmælinu,“ segir Halli að lokum en tekur fram að þau hafa fengið mjög jákvæð viðbröð við listaverkinu bæði frá nágrönnum í kring og öðrum Mosfellingum.