Ný bók og útgáfuboð í Hlégarði

Ingibjörg Valsdóttir gaf nýverið út sína þriðju barnabók, Að breyta heiminum. Lilja Cardew er höfundur teikninga og er bókin gefin út af Bókabeitunni.
Áður hefur hún skrifað tvær bækur um þau Pétur og Höllu við hliðina; Fjöruferðin og Útilegan. Ingibjörg er uppalin í Mosfellsbæ og hefur búið hér frá unga aldri.

Sagan rúllaði áfram
„Það var engin ein hugmynd eða kveikja á bak við bókina, smám saman komu sögupersónurnar og umhverfið til mín og sagan rúllaði bara áfram sína leið,“ segir Ingibjörg.
Að breyta heiminum fjallar um systkinin Marko og Stellu sem eru skyndilega stödd á skrýtnum stað. Marko hittir ýmsar furðuverur í leit sinni að leiðinni heim, eins og Rösk, Verkil og Beru, sem búa yfir leyndum hæfileikum og eiga það sameiginlegt að vilja leiða Marko í rétta átt.
„Ég hef fengið mjög góð viðbrögð við bókinni. Mér þótti sérstaklega vænt um umsögn þar sem fram kom að bókin hefði vakið djúpar pælingar og umræður milli barnungs lesanda og foreldris.
Í framhaldinu var því velt upp hvort það sé ekki með betri kostum bókar ef slíkt gerist. Þetta gladdi mig mjög mikið,“ segir Ingibjörg.

Útgáfuboð í Hlégarði á þriðjudaginn
Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum og á www.bokabeitan.is.
Þriðjudaginn 17. október verður haldið útgáfuboð í Hlégarði sem hefst kl. 17 og verður einnig hægt að kaupa bókina þar á tilboðsverði.
„Mér fannst viðeigandi að halda útgáfuboðið í Hlégarði þar sem er svo notalegt að vera. Ég hlakka til að eiga þar góða stund og vonast auðvitað til að sjá sem flesta Mosfellinga, á öllum aldri,“ bætir Ingibjörg við að lokum.