Gefur út Löngu horfin spor

Mosfellingurinn Guðjón Jensson hefur gefið út skáldsöguna Löngu horfin spor. Guðjón, sem er bókfræðingur, leiðsögumaður og rithöfundur, hefur lengi fengist við ritstörf, einkum greinaskrif í blöð og tímarit.
„Ég hef undanfarin 10 ár fengist við rannsókanvinnu og ritun á þessu skáldverki sem byggt er á sögu og örlögum Carls Reichsteins sem var Þjóðverji og kom hingað til lands árið 1937 undir því yfirskini að kenna Íslendingum svifflug. En í raun var hann sendur hingað til lands af SS sveitum þýska nasistaflokksins til að stunda hér njósnir,“ segir Guðjón sem í bókinni gerir einnig þjóðlífinu í Reykjavík á þessum tíma góð skil.

Umfangsmiklar rannsóknir
Sagan byggir á umfangsmiklum rannsóknum á lífi Reichsteins á Íslandi en hann lést á dularfullan hátt tæpu ári eftir komu sína til landsins. Andlát hans var aldrei rannsakað til hlítar en ótal margar spurningar vakna við lesturinn. Hvað var gyðingur að gera í SS-sveitum Hitlers? Var hann sendur hingað á vegum nasista til njósna á Íslandi? Var Carl Reichstein myrtur af útsendurum nasista?
Á einhverjum tímapunkti hefur þessi ungi maður sem fæddur var 1909 í borginni Gelsenhausen í Ruhrhéraði tekið þá umdeildu ákvörðun að ganga í SS-sveitir Nasista. Líklega hefur hann bundið þá ákvörðun einhverjum forsendum en líklega var þetta ekki rétt ákvörðun. Með komu sinni til Íslands eru gerðar væntingar til hans að afla upplýsinga á Íslandi í þágu nasista en hann mun vera einn fyrsti SS-maðurinn sem starfaði á Íslandi.

Glímdi við krabbamein á ritunartímanum
„Á meðan á ritunartímanum stóð gekk á ýmsu í mínu lífi, ég glímdi við krabbamein og að komast fyrir það. Þann tíma átti þetta ritverk sinn þátt í að draga athygli mína frá krabbameininu, rannsaka og skrifa um þennan svifflugmann sem hefur verið mér mikil ráðgáta og verðum öðrum líklega einnig við lesturinn.
Skáldverkið er byggt á ítarlegri rannsókn heimilda sem þó eru ekki að fullu rannsakaðar. Í bókinni fjalla ég líka mikið um Reykjavík á þessum tíma, mannlífið og stéttabaráttuna,“ segir Guðjón og bætir við að þessar rannsóknir skilji eftir margar spurningar en einnig nokkrar áhugaverðar niðurstöður. Bókina má nálgast í öllum helstu bókabúðum og hjá höfundi sjálfum.