Veiðimaður og bóndi í hjarta mínu

bæjarlistamaður2017

Davíð Þór er meðal fjölhæfustu tónlistarmanna landins, jafnvígur á píanóleik, spuna, tónsmíðar og hljómsveitarstjórn auk þess sem hann leikur á ógrynni hljóðfæra. Hann hefur leikið með flestum tónlistarmönnum landsins og spilað á tónlistarhátíðum um allan heim.
Mosfellsbær útnefndi Davíð Þór bæjarlistamann Mosfellsbæjar 2017 á dögunum en viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hlégarði.

Davíð Þór Jónsson er fæddur á Seyðisfirði 27. júní 1978. Foreldrar hans eru þau Jenný Ásgerður Magnúsdóttir listakona, húsfreyja og skautritari og Jón Þórir Leifsson vélsmiður og lögreglumaður. Davíð á þrjá bræður, Daníel, Leif og Arnar.

Fékk að vera frjálst barn
„Ég flutti frá Seyðisfirði til Akraness þegar ég var þriggja ára gamall. Þegar ég hugsa til æskuáranna á Skaganum þá er það brimið við Traðarbakkakletta, rauðmagi, hrogn og lifur, mamma syngjandi og þríhjólareiðtúr á Kothúsatúninu sem stendur upp úr.
Frá unga aldri sinnti ég heimilis- og ­bústörfum ásamt því að leggja net með föður mínum.
Ég fékk að vera frjálst barn þar sem ég gat leikið lausum hala um götur og fjörur bæjarins. Ég fór líka mörg sumur í sveit í Andakíl í Borgarfirði og átti það mjög vel við mig í alla staði.
Ég gekk í Brekkubæjarskóla og fór þaðan í Fjölbrautaskóla Vesturlands.“

Starfið hefur margar birtingamyndir
„Tónlist var hluti af daglegu lífi þar sem var sungið, spilað á gítar eða leikið á potta og pönnur. Ég var níu ára þegar ég fór í fyrsta píanótímann í Tónlistarskóla Vesturlands. Ég fékkst ekki til að fara fyrr en ég frétti að Sveinn Rúnar æskuvinur minn ætlaði að skella sér í tíma, þá fór ég líka. Í kjölfarið lærði ég svo á saxafón í 10 ár. Þarna var ekki aftur snúið því líf mitt hefur meira og minna snúist um tónlist síðan.
Ég byrjaði að vinna fyrir mér sem tónlistarmaður þegar ég var 14 ára gamall og hef starfað við það síðan. Starf mitt hefur margar birtingarmyndir, allt frá því að leika á harmonikkuballi í Dölunum yfir í það að leika í kvikmynd í Úkraínu.“

Gaf út sína fyrstu sólóplötu
Davíð Þór stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og fór í skiptinám til Þrándheims á vegum skólans og útskrifaðist vorið 2001. Árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Rask.
Hann hefur gert tónlist og hljóðmyndir fyrir fjölda leiksýninga, Tengdó, Hrærivélina, söngleikinn Leg, Baðstofuna, Héra Hérason, Manntafl, Mýs og menn, Dagbók djasssöngvarans og síðast Húsið sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Hann hefur einnig tónsett útvarpsleikrit og sjónvarpsverk af ýmsu tagi auk þess að semja tónlist fyrir dansverk.
Davíð Þór hefur frá unga aldri leikið með flestum þekktari tónlistarmönnum landsins. Hann hefur einnig unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum og mætti þar helst nefna Ragnar Kjartansson, en saman sköpuðu þeir tónlistar- og myndbandsverkin „The End“, framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009 og „Guð“. Davíð samdi og útsetti tónlistina og flutti ásamt Ragnari og hljómsveit.
Davíðs Þór hefur hlotið margvísleg verðlaun, til dæmis Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss hefur verið verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.

Nýtur lífsins í Álafosskvosinni
Davíð Þór er kvæntur Birtu Fróðadóttur arkitekt og saman eiga þau dótturina Silfru sem er átján mánaða gömul. Ég spyr Davíð út í föðurhlutverkið. „Það er bæði stærsta verkefnið og jafnframt það dásamlegasta í lífi mínu og kemur manni sífellt á óvart.“
Fjölskyldan er búsett í Álafosskvosinni þar sem Davíð er einnig með vinnustofu. Davíð segir Kvosina vera dásamlegt lítið þorp þar sem fólk talar mannamál, verkar fugl og fisk á víxl og tekur einn dag í einu.
„Við Birta erum forvitnir eldhugar og elskum að ferðast og nema ný lönd, kynnast nýju fólki og læra af því. Við höfum mikið dálæti á að vera undir Snæfellsjökli og þar höfum við átt töfrastundir. Aðráttaraflið þar er það sama og á við um tónlist, það er hið ósýnilega. Við göngum einnig til rjúpna saman í leit að kyrrðinni.“

Minnir mann á að halda áfram að skapa
Mosfellsbær útnefndi Davíð Þór bæjarlistamann Mosfellsbæjar 2017 á dögunum en viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hlégarði. En hvaða þýðingu hefur það að vera bæjarlistamaður Mosfellsbæjar? „Það er mikill heiður og vissulega hefur það jákvæða þýðingu í hvívetna. Þetta minnir mann á að halda áfram að skapa og gefa af sér eins og kostur er á.
Ég mun láta gott af mér leiða áfram og munu nokkrir viðburðir líta dagsins ljós hér í bæ nú í vetur á hinum ýmsu vel völdu stöðum. Nánari staðsetning og tími kemur í ljós síðar.“

Kona fer í stríð
Um þessar mundir er Davíð Þór að vinna að tónlist fyrir nýjustu kvikmynd Benedikts Erlingssonar sem ber heitið Kona fer í stríð, en hún er um konu sem vill bjarga heiminum og hefur fundið lausnina til þess. Tónlistin er meðal annars unninn í Sundlauginni, hljóðveri í Álafosskvos, en þar vinnur Davíð mikið að listsköpun sinni.
„Þrátt fyrir allt þetta hafarí þá er ég samt veiðimaður og bóndi í hjarta mínu og tel að æðsta markmiðið sem maður hefur í lífinu sé að verða góð manneskja,“ segir Davíð að lokum.

Mosfellingurinn 7. september 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs