Útiveran heillar mig mest
Íslandsmótið í golfi fór fram á Vestmannaeyjavelli í sumar. Í karlaflokki fór Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar með sigur úr býtum en hann fór hringina þrjá á 204 höggum eða 6 undir pari vallarins.
Kristján Þór hefur notið mikillar velgengni á golfferli sínum en hann vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil aðeins 17 ára gamall.
Kristján Þór fæddist í Reykjavík 11. janúar 1988. Foreldrar hans eru þau Hrafnhildur Kristín Kristjánsdóttir aðstoðarkona tannlæknis og Einar Páll Einarsson rafvirki og flugvéla- og flugmódelasmiður. Hrafnhildur Kristín lést árið 1995.
Kristján Þór á fjögur hálfsystkini, Erlend Jón f. 1971, Steingrím Óla f. 1973, Hrefnu Sigurlaugu f. 1975 og Rakel Dögg f. 1979.
Rosa frægur fótboltakarl
„Ég ólst upp bæði í Kópavogi og í Mosfellsbæ og á ekkert nema góðar minningar frá báðum þessum stöðum. Maður var ævintýragjarn sem krakki og oftar en ekki var maður kominn langt í burtu frá heimilinu og stundum þurfti að leggja í leit til að finna mig.
Ég var einnig mikið í Vestmannaeyjum á mínum æskuárum en móðir mín er ættuð þaðan, ég á frábærar minningar frá þeim tíma.
Mér er minnisstætt þegar ég fór á Shellmótið 1998, þá spilaði ég með HK og við urðum Shellmótsmeistarar. Það sem stóð upp úr á þessu móti var að pabbi tók alvöru myndatökuvél með sér og hann tók upp alla leikina hjá öllum liðunum hjá HK. Hann setti síðan allt mótið á vídeóspólu til að gefa strákunum, þetta vakti mikla lukku.
Skyldmenni mín úr Eyjum komu og fylgdust með öllum leikjum hjá mér og mér leið eins og ég væri orðinn rosa frægur fótboltakarl,“ segir Kristján og brosir.
Þetta var mjög erfiður tími
„Þegar ég var sjö ára þá missti ég móðir mína úr krabbameini, hún lést rétt fyrir jólin og ég man hvað þetta var erfiður tími. Ég eyddi jólunum með fjölskyldu mömmu í Vestmannaeyjum, það var gott að vera þar því þá gat ég komið við hjá mömmu í kirkjugarðinum.
Að missa móður svona ungur hefur haft mikil áhrif á líf mitt en það hefur gert mig að þeim manni sem ég er í dag. Ég hef fengið mikinn stuðning bæði frá föður- og móðurfjölskyldum mínum í gegnum tíðina. Þau hafa í raun umvafið mig alla tíð og fyrir það er ég þakklátur.
Pabbi á mikið hrós skilið fyrir það að standa sig vel í uppeldinu, það er ekkert einfalt að vera einstætt foreldri. Hann hafði hæfilegan aga á heimilinu og studdi mig á allan hátt í öllu því sem mig langaði til að gera, í tónlistarnáminu, íþróttunum sem og öðru.“
Þetta tók ansi mikið á
„Ég gekk í Smáraskóla í Kópavogi fyrstu tvö skólaárin mín en fór svo í 3. bekk í Varmárskóla. Það var pínu erfitt að koma svona nýr inn í bekkinn þótt maður þekkti nokkra krakka því ég var svo feiminn. Í 4. og 5. bekk lenti ég í því að mér var strítt, mér var strítt á því að eiga enga mömmu, það tók ansi mikið á.
Heilt yfir var samt mjög gott að vera í Varmárskóla og maður eignaðist marga vini. Eftir útskrift fór ég í Verzlunarskóla Íslands í tvö ár en færði mig svo yfir í Borgarholtsskóla. Með skólanum starfaði ég í Snæland vídeó, pizzustað, Kaffi Kidda Rót og Hvíta riddaranum. Ég kenndi líka á golfnámskeiði barna hjá Golfklúbbnum Kili.
Á sumrin á skólaárunum starfaði ég sem grassláttumaður á Hlíðavelli. Eftir vinnu var maður svo í golfi og í fótbolta út í eitt og skreið seint heim á kvöldin.“
Verkefnin eru mörg og misjöfn
Kristján Þór á tvö börn, Hrafnhildi Lilju f. 2013 og Ými Annel f. 2014. Kristján hefur starfað hjá Byggingafélaginu Bakka ehf. frá 2014, fyrst sem verkamaður en fór síðan í smíðanám og kláraði sveinsprófið. Í dag er hann útlærður húsasmiður. Hann segir starfið sitt afar skemmtilegt því verkefnin séu mörg og misjöfn hverju sinni.
„Við fjölskyldan erum núna öll komin í golfið svo það verður gaman að spila saman næsta sumar. Við förum líka reglulega í sund, hjólatúra, bíltúra, bíó og fleira tilfallandi.“
Hófum allir æfingar hjá klúbbnum
„Íþróttir í heild sinni eru mín helstu áhugamál og þá fyrst og fremst golf og fótbolti,“ segir Kristján aðspurður um áhugamálin. „Ég byrjaði í golfi sumarið 1998, fór þá á golfnámskeið með tveimur æskuvinum mínum, Davíð Gunnlaugssyni núverandi íþróttastjóra Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Kára Erni Hinrikssyni heitnum en hann lést árið 2016.
Eftir námskeiðið hófum við allir æfingar hjá golfklúbbnum, Árni Jónsson var okkar fyrsti golfkennari, ansi hress karl sem við höfðum mjög gaman af.“
Fór til Bandaríkjanna í nám
Árið 2002 tók Ingi Rúnar Gíslason við sem aðalþjálfari afreksstarfsins í klúbbnum. Kristján Þór var fljótlega valinn í landsliðshópa og fór í margar æfinga- og keppnisferðir með landsliðinu næstu sjö árin.
Kristján vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil þegar hann var 17 ára en þá varð hann Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 16-18 ára, hann vann þetta sama mót ári seinna.
Tvítugur að aldri vann hann Íslandsmótið í höggleik í karlaflokki eftir mikla dramatík á síðasta keppnisdeginum. Árið 2009 varð hann aftur Íslandsmeistari er hann vann holukeppni í karlaflokki og 2014 vann hann sama mót og varð einnig stigameistari mótaraðarinnar sama ár.
Kristján fór til Bandaríkjanna í nám á árunum 2010-2012 og þar tókst honum að vinna þrjú mót á bandarísku háskólamótaröðinni og eru það flestir sigrar á mótaröðinni enn þann dag í dag hjá íslenskum kylfingi.
Þrautseigja skilaði tveimur titlum
Kristján Þór hefur notið mikillar velgengni á golfvellinum á sínum ferli og nú síðasta sumar skilaði þolinmæðisvinna og þrautseigja honum tveimur titlum í viðbót. Hann varð Íslandsmeistari í höggleik og tveimur vikum síðar sigraði hann í Korpubikarnum sem var síðasta mótið á mótaröðinni og tryggði sér um leið stigameistaratitilinn.
En hvað er það sem heillar hann mest við golfíþróttina? „Klárlega náttúran og útiveran, félagsskapurinn og svo er jú auðvitað alltaf gaman að vinna titla,“ segir Kristján Þór brosandi er við kveðjumst.