Síðasta úthlutun úr Samfélagssjóði KKÞ

19 styrkir voru veittir úr Samfélagssjóði KKÞ þann 22. október.

Laugardaginn 22. október fór fram þriðja og síðasta úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði KKÞ.
Sjóðurinn var stofnaður eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings og eftir þessa þriðju úthlutun verður sjóðurinn lagður niður. Sjóðurinn hefur alls úthlutað vel á sjöunda tug milljóna til hinna ýmsu samfélagsverkefna á fyrrum félagssvæði kaupfélagsins sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.
Um síðustu helgi var úthlutað um 30 milljónum en styrkir eru veittir hópum, sjálfseignarstofnunum og frjálsum félagasamtökum. Aðilar sem starfa með einum eða öðrum hætti í anda æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála eða hafa með höndum aðra þá starfsemi er horfir til almannaheilla á fyrrum félagssvæði Kaupfélags Kjalarnesþings höfðu rétt til þess að senda inn umsókn.

Fjármunir aftur heim í hérað
Ég vil þakka félagsmönnum kaupfélagsins fyrir að taka þá skynsamlegu ákvörðun um mitt ár 2016 að slíta félaginu, selja eignir þess og láta þær peningalegu eignir sem eftir stæðu renna inn í sjálfseignarstofnunina, Samfélagssjóð KKÞ. Því án þessarar ákvörðunar værum við ekki hér að færa hluta fjármunanna aftur heim í hérað, aftur til grasrótarinnar,“ segir Stefán Ómar Jónsson formaður Samfélagssjóðsins.
Með honum í stjórn sjóðsins eru þau Birgir D Sveinsson, Steindór Hálfdánarson, Sigríður Halldórsdóttir og Svanlaug Aðalsteinsdóttir.


Kaupfélag Kjalarnesþings var stofnað um miðja síðustu öld og starfaði fyrstu árin að Fitjakoti á Kjalarnesi en lengst af, eða frá 1956, í Mosfellssveit.
Kaupfélagið sjálft hætti verslunarrekstri um 1997 og leigði verslunarhúsnæði sitt út eftir það meðal annars til Krónunnar og fleiri aðila. Félaginu var slitið í júlí árið 2016 og samfélagssjóðurinn stofnaður í lok árs 2017. 

Upplýsingar um fyrri styrkþega og úthlutun Samfélagssjóðsins má finna á www.kaupo.is.


19 styrkir voru afhentir laugardaginn 22. október. 

Alexander Kárason
1.500.000 kr.
Viðurkenning á starfinu Finndu neistann, ungmennastarfi í samvinnu við skóla- og félagsmálayfirvöld. Verkefni sem snýst um að hjálpa krökkum sem mörg eru týnd í skólakerfinu, félagslega eða af öðrum ástæðum.

Andrastaðir á Kjalarnesi – Heimili í sveit
2.000.000 kr.
Kaup á húsgögnum í hið nýja sambýli að Andrastöðum á Kjalarnesi. Heimili fyrir einstaklinga með tvígreiningar eða fjölgreiningar.

Afturelding
5.500.000 kr.
Viðurkenning á mikilvægi barna- og ungmennastarfs allra deilda UMFA.

Afturelding – Aðalstjórn UMFA
1.700.000 kr.
Kaup á skrifstofuhúsgögnum og tækjabúnaði í nýja aðstöðu aðalstjórnar að Varmá.

Ásgarður
2.000.000 kr.
Endurnýjun á tækjabúnaði í vinnustofum Ásgarðs, verndaðs vinnustaðar í Álafosskvos. Ásgarður veitir þroskahömluðum einstaklingum vinnu og þjónustu í einstöku umhverfi.

Búnaðarsamband Kjalarnesþings
1.500.000 kr.
Gerð kvikmyndar um sögu og þróun landbúnaðar á svæði félagsins allt frá Suðurnesjum að Hvalfjarðarbotni.

Félag aldraðra í Mosfellsbæ
1.500.000 kr.
Endurnýjun á fótaaðgerðarstól, sem staðsettur er í þjónustumiðstöð aldraðra að Hlaðhömrum 2, og annarra áhalda til gagns í starfsemi félagsins.

Karlar í skúrum
2.000.000 kr.
Stækkun á vélasal og efnisgeymslu að Skálahlíð 7A. Í Skúrnum eru skapaðar aðstæður fyrir karla þar sem heilsa og vellíðan þeirra er í fyrirrúmi og þar sem þeir geta haldið sér við líkamlega, andlega og félagslega.

Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar
1.500.000 kr.
Endurnýjun á æfinga- og keppnis­búnaði vegna kraftlyftinga.
Í félaginu er lögð áhersla á tvær íþróttagreinar, ólympískar lyftingar og kraftlyftingar. Í félaginu fer fram öflugt barna- og unglingastarf.

Kvenfélag Mosfellsbæjar
250.000 kr.
Framlag til menningar- og samfélagsverkefna.

Kvenfélag Kjósarhrepps
500.000 kr.
Framlag til menningar- og samfélagsverkefna og matar­menningarhátíðar í Kjós.

Kvennakórinn Stöllurnar
750.000 kr.
Viðurkenning á kórstarfi og framlagi til menningarmála. Leiðarljós kórsins er að auðga menningar- og tónlistarlíf í Mosfellsbæ og hefur kórinn í þessu sambandi tekið þátt í nokkrum leiksýningum með Leikfélagi Mosfellsbæjar.

Lionsklúbbur Mosfellsbæjar
250.000 kr.
Framlag til líknar- og samfélagsverkefna á starfssvæði klúbbsins.

Samhjálp – Hlaðgerðarkot
2.500.000 kr.
Endurnýjun á húsgögnum og innanstokksmunum í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal. Hlaðgerðarkot er elsta starfandi meðferðarheimili landsins. Þar er unnið með einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða.

Sigfús Tryggvi Blumenstein
250.000 kr.
Viðurkenning á störfum við söfnun og varðveislu stríðsminja.

Skátafélagið Mosverjar
1.000.000 kr.
Endurnýjun eldhúss í skátaheimilinu í Álafosskvos.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar
3.500.000 kr.
Endurnýjun á sexhjóli til nota á skógræktarsvæðum félagsins.

Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar
500.000 kr.
Átak í uppgræðslu og uppsetning á bekkjum í trjálundi klúbbsins í Mosfellsdal.

Vindáshlíð í Kjós
1.500.000 kr.
Endurnýjun á húsnæði og innanstokksmunum í sumarbúðunum að Vindáshlíð. KFUM og KFUK stendur fyrir faglegu barna- og æskulýðsstarfi en félagið starfrækir fimm sumarbúðir og þar á meðal Vindáshlíð.

 

Fjallað er um úthlutunina í nýjasta tölublaði Mosfellings sem má lesa hér.