Úr Lágafellsskóla í bandaríska flugherinn

Bræðurnir Gunnlaugur Geir Júlíusson 30 ára og Hilmar Þór Björnsson 23 ára sem báðir eru Mosfellingar og gengu í Lágafellsskóla, hafa báðir gegnt herskyldu í bandaríska flughernum.
„Afi okkar í móðurætt var bandarískur hermaður en amma okkar var íslensk, þess vegna erum við með tvöfalt ríkisfang. Mamma okkar, Natacha Durham, er að mestu leyti alin upp á Íslandi en bróðir hennar flutti til Bandaríkjanna og fór í herinn. Við vorum báðir mjög heillaðir af þessum frænda okkar alla okkar barnæsku og hann átti mjög flottan feril í hernum,“ segir Gulli eins og hann er kallaður.

Gengdi herskyldu í 6 ár
„Þegar ég var 18 ára og vissi ekki alveg hvaða leið mig langaði að fara í lífinu þá bauð hann mér að koma til sín og bauðst til að hjálpa mér að komast inn í herinn,“ segir Gulli. „Það er heilmikið ferli að sækja um, maður þarf að taka alls kyns próf og standast miklar kröfur á mörgum sviðum. Það tók mig um 9 mánuði að komast inn. Ég valdi það að sækja um í herlögregluna hjá flughernum sem var það sama og frændi minn hafði gert á sínum tíma.
Ég byrjaði á að fara í eins konar grunnþjálfun og í framhaldinu í herskólann í San Antonio í Texas. Í framhaldi af því þá gegndi ég herskyldu í 6 ár, á þeim tíma fór ég tvisvar sinnum til Afganistan, til Katar og Þýskalands. En í rauninni þá fólst mitt starf í almennum öryggisstörfum, sjá um öryggi á herflugvöllum, öryggi varðandi kjarnorkuvopn og þess háttar.
Eftir þessi 6 ár í hernum fór ég í háskóla í afbrotafræði og hef unnið sem fangavörður með náminu,“ segir Gulli sem nýverið flutti heim eftir 12 ára búsetu í Bandaríkjunum.

Býr á herstöð í Alaska
Yngri bróðirinn, Hilmar, hafði bæði frænda sinn og bróður sem fyrirmynd að fara þessa leið í lífinu. Þegar hann var 20 ára flutti hann til bróður síns í Texas sem aðstoðaði hann svo við að komast inn í flugherinn. „Það tók mig rúmlega ár að komast inn og ferlið var svipað og hjá Gulla, ég byrjaði í grunnþjálfun í Texas en fór svo til Flórída í 4 mánuði í skóla þar fyrir starfið mitt.
Ég er flugvirki og sérsvið mitt er öll vinna utan á vélunum, öll blikkvinna og málun á orrustuþotunum. Það er mjög sérhæft starf og efnin sem við notum eru mörg og sérstök og gera það meðal annars að verkum að vélarnar koma ekki fram á radar.
Í framhaldi af því þá var ég sendur til Alaska þar sem ég kem til með að vera næstu tvö árin. Eftir það verð ég sendur á aðra herstöð annars staðar í heiminum, en ég skrifaði undir 6 ára samning hjá hernum,“ segir Hilmar sem veit ekki hvað hann gerir eftir þann tíma. Atvinnumöguleikarnir eru miklir eftir þessa reynslu.

Eins og risastór fjölskylda
Bræðurnir eru sammála um að þessi reynsla geri þá að betri mönnum en að lífið innan herstöðvanna sé ekki ólíkt lífi í smábæjum. „Í raun er þetta eins og að búa í litlum bæjum ekki ósvipað og Mosó. Þarna er allt til alls og fólk stundar sína vinnu og sinnir vinum og fjölskyldu. Mitt starf fólst í almennum lögreglustörfum og Hilmars starf í almennum flugvirkjastörfum. Það er sérstök menning innan hersins sem margir sækja í,“ segir Gulli.
„Ég er mjög ánægður með að hafa farið þessa leið, ég er búin að eignast marga góða vini og á eftir að búa að þessari reynslu alla ævi. Þetta er eins og að tilheyra risastórri fjölskyldu,“ segir Hilmar að lokum sem er í stuttri heimsókn á Íslandi.