Mosfellskt hugvit sem nær í kringum hnöttinn

Bjarki Elías Bjarkar Kristjánsson gekk til liðs við Controlant með hugbúnað sinn sem nýttur er af stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi.

Bjarki Elías hefur starfað lengi í tæknigeiranum. Í dag leiðir hann ásamt öðrum samfélagslegt og mikilvægt verkefni hjá Controlant sem snýr að rauntímavöktun á flutningi Pfizer bóluefnisins á heimsvísu.
Bjarki hóf störf þar fyrir um ári síðan, fyrst sem ráðgjafi en færði sig svo alfarið með hugbúnað sinn sem hann hefur verið að þróa undanfarin ár en búnaðurinn er nú nýttur af stærstu lyfjafyrirtækjum í heimi.

Bjarki Elías er fæddur í Reykjavík 18. september 1974. Foreldrar hans eru þau Björk Bjarkadóttir fyrrum verkefnastjóri í ferðaþjónustugeiranum og Kristján Friðriksson fyrrum verksmiðjustjóri.
Bjarki á tvær systur, Kristínu Sólveigu lækni f. 1972 og Sesselju óperusöngkonu f. 1970.

Kjallarinn nýttist okkur vel
„Ég er alinn upp í Brekkutanganum en foreldrar mínir byggðu sér hús þar í kringum 1980 og þau búa þar enn. Það var vel rúmt um okkur þannig að kjallarinn var lengi vel stór geimur sem nýttist vel sem einhvers konar félagsmiðstöð fyrir okkur vinina.
Brekkutanginn var á þessum tíma í útjaðri bæjarins, heyskapur og folöld á túninu bak við hús sem náði alla leið til Reykjavíkur, þetta var góður staður til að alast upp.“

Vorum oft nálægt því að hrapa niður
„Leirvogurinn og Úlfarsfellið voru mín leiksvæði fyrstu árin í Mosfellssveit og þar lenti ég í ýmsum ævintýrum. Ég var frekar uppátækjasamur krakki og gerði ýmislegt sem væri ekki vel séð í dag.
Um 7 ára aldurinn gerði ég margar misheppnaðar atlögur að því að komast gangandi yfir Leirvoginn á fjöru. Ég velti því stundum fyrir mér í dag þegar ég spila golf á Hlíðarvelli og lít yfir voginn hvort gúmmítútturnar mínar sé kannski þarna enn. Það hurfu nefnilega ófáar ofan í sandleðjuna í þessum ævintýraferðum.
Eitt af því sem ég stundaði með félaga mínum var að sækja egg úr hömrum Úlfarsfells sem við seldum svo á elliheimilinu. Ef til vill voru sum þeirra stropuð en þau seldust alltaf strax fyrir fúlgur fjár að því okkur fannst a.m.k. Ég hugsa reglulega til þess þegar ég keyri Vesturlandsveginn undir Úlfarsfellinu, hve oft við félagarnir vorum nálægt því að hrapa niður.
Ég þakka fyrir að mín börn hafi ekki fetað í þessi spor mín,“ segir Bjarki og hlær.

Lenti í svörtu bókinni hans Birgis
„Ég byrjaði skólagöngu mína í Ísaksskóla en eftir að við fluttum í Mosfellssveitina þá fór ég í Varmárskóla. Ég naut mín vel þar en átti það til að lenda í „svörtu bókinni“ hans Birgis skólastjóra, eflaust allt vegna „misskilnings,“ segir Bjarki og brosir. „Ég hefði eflaust verið greindur sem ofvirkt barn í dag.
Ég hélt mér nokkurn veginn á mottunni í gaggó en komst þó að því að það væri ekkert sérlega vel séð að mæta á fjórhjóli í skólann. Sumarið eftir gagnfræðaskólann var ég messagutti á varðskipinu Tý, það var mikil lífsreynsla.
Ég stundaði handbolta með Aftureldingu og fyrsta árið mitt í meistaraflokki urðum við deildarmeistarar í 2. deild og komumst upp í 1. deild í fyrsta skipti í 37 ár, það var mikið ævintýri.“

Gaf manni nýja sýn á lífið
„Ég var upphaflega ekkert sérlega spenntur fyrir bóknámi og var staðráðinn í að verða bakari en vegna hvatningar frá foreldrum mínum og Gylfa skólastjóra þá breytti ég um stefnu og fór í Verzlunarskólann.
Ég fór svo í verkfræði og uppgötvaði þá fyrir alvöru tækniheiminn og möguleikana sem hann bauð upp á og fann vel að þar átti ég heima. Ég náði þó að sameina viðskipta- og tölvunarfræði í HR en einnig tók ég hluta af grunnnáminu í Cork á Írlandi.
Á háskólaárunum starfaði ég á sumrin í lögreglunni. Afi minn heitinn, Bjarki Elíasson, hafði verið yfirlögregluþjónn og síðar skólastjóri lögregluskólans. Það var því sjálfgefið að kanna þennan starfsvettvang sem vissulega gaf manni nýja sýn á lífið og tilveruna.“

Fluttum til Danmerkur
Bjarki Elías er kvæntur Helenu Katrínu Hjaltadóttur aðstoðarskólastjóra Dalskóla. Börn þeirra eru Andri f. 1997, Matthildur Birta f. 2001, Lea Björk f. 2006 og Ari Kristján f. 2009. Þau eiga eitt barnabarn.
Bjarki hefur verið iðinn að sinna fjölmörgum áhugamálum í gegnum tíðina en segist ekki vera mikið fyrir afslöppun. Þegar fjölskyldan fer á ströndina þá er hann yfirleitt í sjónum á meðan. Yfir vetrartímann spilar hann fótbolta og körfubolta í hverri viku.
Fjölskyldan fer saman á skíði þegar tækifæri gefst en á sumrin hefur golfið tekið yfir, hann þakkar fyrir það að stór hluti fjölskyldunnar sé með honum í því sporti.
„Fyrir nokkrum árum tók ég Executive MBA gráðu við CBS í Kaupmannahöfn. Það var ævintýri sem fól í sér ferðir til Kaupmannahafnar aðra hverja helgi í tvö og hálft ár. Undir lok námsins fluttum við fjölskyldan út og dvöldum í borginni í nokkra mánuði.“

Hef gaman af að leysa þrautir
„Frá því að ég útskrifaðist hef ég starfað við nýsköpun. Ég hef alltaf haft gaman af því að leysa þrautir og vil helst vinna að einhverju sem hefur ekki verið leyst áður.
Ég hóf starfsferil minn hjá verkfræði­stofunni Hnit 1997 og hef því starfað í tæknigeiranum í rétt tæpan aldarfjórðung. Ég hef verið einstaklega heppinn með fjölbreytt viðfangsefni, ég náði að tvinna saman hugbúnaðarfræði við landupplýsingakerfi og staðsetningarháðar lausnir. Sem dæmi um viðfangsefni eru: Borgarvefsjá, fyrstu gagnvirku vefkortin á Íslandi, Sjónvarp Símans (IPTV), staðsetningareftir­litskerfi fyrir skip, bíla, þyrlur, flughermi, fólk og fleira til.“

Núverandi verkefni er einstakt
„Eftir rúman áratug í tæknigeiranum þá skipti ég um gír og fór yfir í stjórnendaráðgjöf og var í því í 12 ár. Fyrst hjá Capacent en síðar stofnaði ég eigið fyrirtæki með góðum félögum. Mitt sérfræðisvið er svokölluð viðskiptagreind þar sem viðskiptafræðin og upplýsingatæknin mætast. Það má segja að starfsferillinn minn fram að þessu hafi verið að undirbúa mig undir núverandi verkefni sem er einstakt og algjör forréttindi að vinna við.
Síðastliðið haust barst mér símtal frá stjórnendum Conrolant sem hefur heldur betur dregið dilk á eftir sér. Ég fór fyrst inn í Controlant sem ráðgjafi en færði mig svo alfarið þangað með mínar tæknilausnir sem ég hef verið að þróa undanfarin ár. Ég er að taka þátt í ótrúlega gefandi og samfélagslegu mikilvægu verkefni sem snýr að rauntímaflutningi Pfizer bóluefnisins á heimsvísu þannig að mosfellska hugvitið nær nú í kringum hnöttinn.
Á þessu ári hefur Controlant vaxið úr því að vera 70 manna fyrirtæki í að verða 300 manna. Fyrirtækið vinnur í dag náið með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum, flutnings­aðilum og matvælaframleiðendum í yfir 120 löndum svo framtíðin er björt,“ segir Bjarki að lokum er við kveðjumst.