Afturelding sér um dreifingu Mosfellings

Mosfellingur og ungmennafélagið Afturelding hafa gert með sér samning um dreifingu bæjarblaðsins. Mosfellingur kemur út að jafnaði á þriggja vikna fresti og er dreift frítt í hús í Mosfellsbæ.
Íslandspóstur hefur séð um dreifingu blaðsins í fjöldamörg ár en ákvað að hætta að dreifa ónafngreindum fjölpósti á síðasta ári í sparnaðarskyni. „Þá voru góð ráð dýr,“ segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. „Við leituðum til Aftureldingar og höfum átt mjög gott samstarf við félagið sem hefur nú verið innsiglað til næstu ára.“

Ný fjáröflun ungmennafélagsins
Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar tekur í sama streng og fagnar þessari nýju fjáröflun félagsins. „Við erum með galvaska iðkendur innan okkar raða sem fara létt með þetta verkefni. Deildir félagsins hafa skipst á að bera út blaðið og verður það þannig áfram.“
Þessi skerta þjónusta hins ríkisrekna Íslandspósts þýðir að dreifbýlið situr eftir. Við bendum því góðfúslega á að hægt er að nálgast eintak á næstu bensínstöð, bókasafninu, íþróttamiðstöðvunum og fleiri fjölförnum stöðum í Mosfellsbæ. Svo er auðvitað hægt að lesa blaðið á netinu, www.mosfellingur.is.
Á myndinni má sjá Hönnu og Hilmar handsala samninginn.