Undirbúningur Orkugarðs í Reykjahverfi hafinn
Nýting á heitu vatni á Íslandi á sér sterka sögulega skírskotun til Reykjahverfis og þar er ennfremur upphaf nýtingar á heitu vatni á Íslandi en Stefán B. Jónsson bóndi á Reykjum leiddi fyrstur manna heitt vatn inn í íbúðarhús á Íslandi árið 1908.
Í því ljósi hafa vaknað hugmyndir um að reistur verði Orkugarður í Reykjahverfi á lóð í eigu Veitna ohf. Í viðræðum við Veitur hefur komið fram að mikill áhugi sé á hugmyndinni og hefur fyrirtækið lýst því yfir að það sé reiðubúið til þess að undirrita viljayfirlýsingu um verkefnið og setja fjármuni til uppbyggingar og frágangs árin 2023-2024.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur nú heimilað gerð viljayfirlýsingar milli Mosfellsbæjar og Veitna ohf. um Orkugarð í Reykjahverfi og falið skipulagsnefnd það verkefni að útfæra hugmyndina nánar og undirbúa deiliskipulag fyrir Orkugarð.