Um áramót
Kæru Mosfellingar!
Um áramót er hefðbundið að líta yfir farinn veg, rifja upp og meta hvernig liðið ár hefur gengið og ekki síður að velta fyrir sér hvað bíður okkar á nýju ári.
Árið 2018 var stórt afmælisár hjá okkur Íslendingum. Því var fagnað að 100 ár voru liðin frá því að Ísland fékk fullveldi frá Dönum árið 1918. Margt hefur drifið á daga íslenskrar þjóðar á þessum 100 árum og hún færst úr fátækt í að verða meðal best stöddu samfélaga veraldar. Sú staðreynd sýnir vel hvað býr í íslensku þjóðinni og hvers við erum megnug sem samfélag og þá sérstaklega þegar við stöndum saman. Árið 2018 var líka hagfellt þjóðarbúinu og hagvöxtur hélt áfram að vaxa þó hægt hafi á vexti hans frá síðustu árum.
Verkefni næstu ára verður að vinna af yfirvegun úr þeim mikla uppgangi sem verið hefur í íslensku efnahagslífi síðustu árin og sjá til þess að samdráttur í hagvexti hafi ekki óæskileg áhrif á hagkerfið þannig að lendingin verði mjúk og farsæl. Mikilvæg forsenda þess er að gera skynsamlega kjarasamninga nú í vor. Kjarasamninga sem fela í sér kaupmáttaraukningu en eru þeirrar gerðar að atvinnulífið standi undir þeim og þannig að þeir hrindi ekki verðbólgu af stað. Við höfum verið svo lánsöm að vera laus við þann draug síðustu ár sem er meginástæða þess að kaupmáttaraukning hefur verið í hæstu hæðum hér á landi undanfarin ár.
Í maí sl. var gengið til sveitarstjórnarkosninga. Þær voru að mörgu leyti sérstakar í Mosfellsbæ. Óvenju mörg framboð buðu fram í kosningunum eða samtals átta sem telst mjög mikið í ellefu þúsund manna sveitarfélagi. Þessi fjöldi framboða þýddi meiri dreifingu atkvæða og varð niðurstaðan sú að sex af þessum átta framboðum fengu mann inn í bæjarstjórn. Nú sitja sjö karlar og tvær konur í bæjarstjórn sem eru kynjahlutföll sem eru ekki til eftirbreytni.
Sjálfstæðisfólk getur unað vel við úrslit kosninganna. Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra menn kjörna í bæjarstjórn en hin framboðin fimm fengu einn mann hvert. Fljótlega að kosningum loknum var gengið frá málefnasamningi um áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisfólks og Vinstri grænna í bæjarstjórn. Samstarf sem hefur staðið yfir frá því í maí 2006 og hefur reynst samfélaginu hér í Mosfellsbæ afar farsælt. Við Sjálfstæðisfólk og ég persónulega erum afar þakklát og stolt yfir þeim mikla stuðningi sem við hlutum í kosningunum enda fengum við þar skýrt umboð til að halda áfram að leiða stjórn bæjarins næstu fjögur árin.
Góður gangur í Mosó
Mikill uppgangur er í Mosfellsbæ um þessar mundir. Íbúafjölgun á árinu 2018 var rúmlega 8% og er það annað árið í röð sem íbúafjölgun í Mosfellsbæ fer yfir 8%. Þetta er fordæmalaus vöxtur og lýsir fyrst og fremst vinsældum Mosfellsbæjar til búsetu. Leirvogstunguhverfið er að nálgast það að verða fullbyggt og í Helgafellshverfi heldur uppbygging áfram. Þéttasti hluti þess sem kallast Augað er að verða fullbyggt og áfram verður haldið með næstu áfanga á komandi árum þar sem verður um að ræða dreifðari byggð en í Auganu.
Loks á mikil uppbygging sér stað í miðbænum okkar þar sem rúmlega 200 íbúðir eru í byggingu auk húsnæðis fyrir verslun og þjónustu. Því er fyrirséð að Mosfellingum mun halda áfram að fjölga þó að það verði væntanlega ekki af þeirri stærðargráðu sem hefur verið síðustu tvö árin.
Íbúafjölgun af þessum skala kallar á fjárfestingar og frekari eflingu innviða. Á árinu 2019 verður slegið met í fjárfestingu og þar ber hæst tvö verkefni. Annars vegar bygging Helgafellsskóla en fyrsti áfangi hans var tekinn í notkun nú í vikunni. Hins vegar bygging fjölnota knatthúss að Varmá sem áformað er að taka í notkun næsta haust.
Smærri framkvæmdir eru einnig á áætlun og má þar nefna endurbætur á húsnæði Varmárskóla, útskipting allra gólfefna í íþróttasölum að Varmá og þátttaka í uppbyggingu skíðasvæða höfuborgarsvæðisins m.a. í Skálafelli. Miklar gatnagerðarframkvæmdir eru einnig áætlaðar en gatnagerðargjöld munu standa undir þeim.
Meiri og betri þjónusta en lægri álögur
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 einkennist af því að þjónusta eykst og álögur lækka. Framtíðarsýn okkar er sú að að Mosfellsbær sé fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúanna að leiðarljósi.
Fjárhagsáætlun árisins 2019 er ætlað að endurspegla áherslur sem færa okkur enn nær þessari framtíðarsýn. Efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbær vöxtur er lykillinn að því að raungera þessa framtíðarsýn. Nú sem fyrr ríkir gott jafnvægi í rekstri Mosfellsbæjar og allar okkar helstu kennitölur eru þar sem við viljum hafa þær.
Á sviði skóla- og frístundamála verða engar hækkanir á gjaldskrám fyrir utan verðlagshækkun á skólamáltíðum næsta haust og þá munu leikskólagjöld lækka um 5% á árinu 2019. Þá er gert ráð fyrir að komið verði á fót tuttugu nýjum plássum á leikskólum fyrir 12-18 mánaða börn og eru þá orðin samtals um 70 pláss á ungbarnadeildum leikskóla bæjarins. Áfram verður verulegum fjármunum varið til upplýsinga- og tæknimála skólanna sem bæta aðstöðu í grunn- og leikskólum bæjarins. Á sviði fjölskyldumála munu framlög til afsláttar á fasteignagjöldum tekjulægri elli- og örorkuþega hækka um 25% og komið verður á fót heimili fyrir geðfatlaða. Þá mun framlag í lista- og menningarsjóð hækka um 20%. Framlög til viðhalds húsa og lóða bæjarins verða aukin þriðja árið í röð.
Loks stendur fyrir dyrum endurskoðun á aðalskipulagi, lokið verður við mótun umhverfisstefnu og hafist verður handa við mótun lýðheilsu og forvarnarstefnu. Þá verður skólastefnan endurskoðuð. Á sviði miðlægrar þjónustu verður unnið að verkefnum sem lúta að því að sækja fram á sviði rafrænnar þjónustu og stjórnsýslu þvert á skipulag bæjarins í samvinnu við íbúa. Loks verður lýðræðisverkefnið Okkar Mosó sett af stað á nýju ári.
Okkur Mosfellingum eru allir vegir færir og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU sem leiðsögn höldum við áfram að feta veginn með heill og hamingju íbúa í forgrunni.
Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2018 og megi nýrunnið ár verða okkur öllum gæfuríkt og gleðilegt.
Haraldur Sverrisson
bæjarstjóri