Tökum vel á móti íþróttafólkinu okkar!

Hanna Björk Halldórsdóttir

Hanna Björk Halldórsdóttir

Í fjölda ára hefur íþróttafólkið okkar í Aftureldingu farið til útlanda í keppnis- og æfingaferðir. Þessar ferðir eru frábærar fyrir svo margar sakir.
Í ferðunum eru krakkarnir saman nánast öllum stundum og kynnast því betur en ella. Iðkendur fá að æfa og keppa við bestu aðstæður, í góðu veðri og við nýjan andstæðing. Þetta bætir heldur betur í reynslubankann hjá íþróttafólkinu okkar. Þessar ferðir skapa liðsheild, vinskap og frábærar minningar.

Hjá Aftureldingu sjá foreldrarráðin, með hjálp stjórn deilda, um að skipuleggja þessar ferðir. Vinnan á bak við svona ferð er gríðarleg, hóparnir eru sumir hverjir stórir, sumir iðkendur kannski með einhverjar meiri þarfir en aðrir og einhverjir eru að fara til útlanda í fyrsta skipti. Að mörgu þarf að huga.
Kappkostað er að hafa þessar ferðir sem ódýrastar, alltaf kostar þetta þó sitt. Þar koma fjáraflanir inn, en vel skipulagðar fjáraflanir geta minnkað kostnaðinn allverulega ef iðkendur eru duglegir að taka þátt. Og það eru til dæmi um að iðkendur nái að safna sér fyrir allri ferðinni. Fjáraflanirnar einar og sér geta skapað sömu liðsheild, vinskap og minningar og ferðin sjálf. Svo talað sé ekki um uppeldislegt gildi þeirra.

Happdrætti, harðfiskur, hamingja
Fjáraflanir eru alls ekki allar jafn skemmtilegar. Sumar eru bara hreinlega leiðinlegar, en sumar eru nauðsynlegar. Ég var að öllum líkindum ekki sú vinsælasta þegar ég sendi krakkana út að tína rusl í bænum okkar í síðasta mánuði, og hreinlega með ólíkindum að ég hafi ekki verið með hiksta þegar það byrjaði að rigna og fjúka. Til þess að halda uppi fjörinu hafa foreldrafélögin reynt að hafa þær sem fjölbreyttastar. Á móti koma skemmtilegu fjáraflanirnar. Mosfellingar hafa eflaust fengið einhverja í heimsókn nú þegar með happdrættismiða eða harðfisk. Á næstu vikum fara af stað allra skemmtilegustu fjáraflanirnar, þ.e. maraþonin.
Í sumar fara nokkrir flokkar til útlanda. Frá handknattleiksdeildinni fara þrír flokkar, 4. og 5. flokkur kvenna og 4. flokkur karla, frá knattspyrnudeildinni fara 3. og 4. flokkur kvenna, frá sunddeildinni fer Gullhópur og frá frjálsíþróttadeildinni fara iðkendur 14 ára og eldri. Nú í maí og júní ætla þessar deildir að efna til maraþons, hver innan sinnar deildar. Þá eyða krakkarnir 10-12 klst saman í íþróttahúsum og sundlaugum bæjarins. Meirihuti tímans fer í að stunda þá íþrótt sem þau keppa í en svo er þessu einnig slegið upp í leik og keppnir í öðrum íþróttagreinum
Mig langar til því að biðja þig, kæri Mosfellingur, að taka vel á móti íþróttafólkinu okkar. Á næstu vikum eigið þið eftir að fá metnaðarfullt, jákvætt og duglegt íþróttafólk í heimsókn sem ætlar að safna áheitum fyrir maraþon. Þrjú maraþon, fjórar deildir og átta flokkar eru margir iðkendur. Öll stefna þau þó að því sama, að komast í keppnisferð og að verða betri. En höfum það í huga að öll stunda þau íþróttina sína hjá sama félagi.
Takk sjálfboðaliðar, takk foreldraráð og takk foreldrar fyrir að gera þessar ferðir mögulegar. Takk bæjarbúar, fyrir stuðningin og góðar móttökur.
Áfram Afturelding!

Hanna Björk Halldórsdóttir,
íþróttafulltrúi Aftureldingar