Vinnustaðurinn okkar, Varmárskóli

varmarskoligrein

Við undirritaðar vinnum í Varmárskóla og erum stuðningsfulltrúar. Við erum stoltar af því vinna í Varmárskóla og þar ríkir góður vinnuandi.
Okkur og fleirum þykir miður þessi neikvæða umræða um vinnustaðinn okkar, rúmlega 800 nemenda og 150 annarra starfsmanna sem hefur verið undanfarið. Í Varmárskóla starfar frábært starfsfólk sem leggur mikið á sig.
Í Stundinni birtist bréf sem byrjar á þessa leið: „Foreldrar og kennarar barna í Varmárskóla eru ósáttir við skólastjórnendur.“ Þótt við séum ekki kennarar við skólann þá vitum við að það er engin óánægja meðal starfsfólks með skólastjórnendur. Kannski er pistlahöfundurinn að vitna í starfsmann sem er löngu hættur störfum?
Mikil umræða hefur verið um myglu í skólanum, við starfsfólkið höfum verið mjög vel upplýst um gang mála. Haldnir hafa verið fundir með okkur starfsfólki með umhverfissviði bæjarins. Það hafa fundist rakaskemmdir sem er kannski ekki óeðlilegt í gömlu skólahúsnæði en reynt hefur verið að laga það og telja menn að það hafi tekist vel til en það þarf alltaf að vera á tánum í þessum málaflokki. Það er ekkert óeðlilegt að viðhald fari fram, ekki síst í húsnæði sem er notað kvölds og morgna.
Húsnæðið okkar nýta kórar og bekkjarfulltrúar eru duglegir að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum eftir að skóla lýkur. Það vekur furðu okkar að spyrja á pólitískri Face­book-síðu hér í bæ hvort fólk mæli með skólanum. Á síðu þar sem einmitt hefur verið ítrekað fundið að skólanum í einu og öllu. Að sjálfsögðu koma mismunandi sjónarmið eins og samfélagið er uppbyggt. Sum svörin dæma sig sjálf og það er dapurt að sjá einstaklinga kasta fram fullyrðingum sem ljóst er að skólinn getur ekki tjáð sig um.
Fullyrt er að það sé allt morandi í einelti og ekki tekið á því. Við skólann starfar mjög öflugt eineltisteymi sem fundar um leið og mál koma upp og setja í ferli. Málin eru hinsvegar ekki alltaf leysanleg ef heimilin koma ekki með í þá vegferð. Sumt á sér stað utan skóla, í netheimum og þar þurfa heimilin að stíga fast niður.
Einnig er talað um að það sé engin sérkennsla lengur í skólanum! Hvaðan fá aðilar þær upplýsingar? Í Varmárskóla yngri deild er stoðþjónustan örugglega með þeim allra bestu sem þekkist á landinu. Þar starfar 18 stuðningsfulltrúar, þrír sérkennarar, einn þroskaþjálfi og einn iðjuþjálfi.
Að auki hafa margir kennarar og stuðningsfulltrúar það hlutverk að vera lestrarstuðningur við þá nemendur sem ekki hafa náð lestrarviðmiðum og þurfa auka þjálfun. Við erum með Varmárstofu sem þjónustar nemendur meðal annars með einhverfu og aðrar raskanir.

Við erum stolt af skólanum okkar og teljum okkur vera að vinna gott starf. Uppbyggileg gagnrýni er að sjálfsögðu gild en þegar hún verður til niðurrifs hefur hún þá ekki snúist í andhverfu sína?

Fyrir hönd stuðningsfulltrúa við Varmárskóla
Margrét Gróa Björnsdóttir , Ása Þ. Matthíasdóttir, Birgitta
Jóhannsdóttir, Sandra Rut Falk og Sigríður F. Jónbjörnsdóttir