Þolinmæðin á þrotum

Bergljót Ingvadóttir

Bergljót Ingvadóttir

Spáð hefur verið að næsta uppreisn í samfélaginu verði hjá láglauna menntafólki. Ég vona svo sannarlega að sú spá rætist. Það er styrkur í fjöldanum. Kennarar eru fjölmenn stétt. Þeir eiga að hafa bolmagn til að standa á kröfum sínum en til þess þurfa kennarar að sýna sterkan vilja og samstöðu.
Kennarar hafa reynt að stilla mótmælum sínum í hóf og hafa nokkrum sinnum gengið út af vinnustað seinni part dags til að vekja athygli á kjarabaráttu sinni. Þetta hefur verið gert til að raska starfsemi skóla sem minnst. En það kemur í ljós að þetta er lögleysa, brot á starfssamningi og eiga kennarar á hættu að vera hýrudregnir fyrir vikið. Kennarar eru sem stendur samningslausir og hafa verið mánuðum saman. Hversu lengi mega yfirvöld draga kennara á asnaeyrunum? Illa gert en eflaust löglegt.
Eftir hrun hafa tekjur kennara rýrnað jafnt og þétt. Flestir gera sér ekki grein fyrir því að kennarar urðu þá fyrir duldri launalækkun. Kennslustundum og skóladögum var fækkað og yfirvinna tekin af. Minnkuðu kröfurnar að sama skapi? Nei, kröfurnar jukust, ekkert fellt út af stundaskrá og verkefnum fjölgað. Kennarar áttu bara að vinna helmingi hraðar.
Margir undrast þá stífni í kennurum að hafna samningum – ekki einu sinni, heldur tvisvar. Ég skora á kennara að hafna samningum aftur ef sami grautur í sömu skál verður borinn á borð. Kennarar kæra sig ekki um samning þar sem þeir eru látnir afsala sér áunnum réttindum fyrir nokkrar krónur á mánuði. Ekki aftur.
Ef ekkert er að gert horfum við fram á kennaraskort í náinni framtíð. Kröfur hafa verið gerðar á aukna menntun kennara og hið besta mál að vera með vel menntaða kennara. En háskólamenntun er tímafrek og dýr. Ef ráðamenn vilja fá til starfa unga kennara með fimm ára háskólanám að baki verða launin að endurspegla það. Nú blasir einnig við flótti úr kennarastéttinni. Verkföll hafa engu skilað nema tekjutapi. Hugsanlega skila hópuppsagnir einhverju. Þolinmæðin er að minnsta kosti á þrotum.
Krafan er einföld og afdráttarlaus. Kennarar vilja laun í samræmi við menntun, ábyrgð og vinnuálag. Þeir vilja launaleiðréttingu. Án skilmála. Rétt eins og alþingismenn og aðrir háttsettir embættismenn fá skilyrðislaust. Ekki bráðum, ekki í áföngum, heldur strax.

Bergljót Ingvadóttir,
kennari við Varmárskóla.