Þjónusta aukin og skattar lækkaðir

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2017 er nú til umræðu í bæjarstjórn. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir rúmlega 200 mkr. afgangi af rekstri.
Veltufé frá rekstri verður jákvætt um 924 mkr. eða um 10% af heildartekjum og að í árslok 2017 verði skuldaviðmið komið niður í 106% af tekjum sem er langt undir viðmiðunarmörkum sveitarstjórnarlaga.

Skattar lækkaðir og þjónustugjöld óbreytt
Skattar verða lækkaðir á íbúa Mosfellsbæjar á árinu 2017. Í fyrsta skipti síðan fyrir hrun verður álagningarhlutfall útsvars fyrir neðan hámark en bæjarstjórn hefur ákveðið að það verði 14,48% en hámarkið er 14,52%. Jafnframt er gert ráð fyrir lækkun fasteignagjalda til að koma til móts við þá auknu eignamyndun sem átt hefur sér stað með hækkun fasteignamats. Þessar aðgerðir lækka greiðslur heimilanna um 12.000 kr. á ári að meðaltali.
Auk lækkunar skatta er gert ráð fyrir að þjónustugjöld sveitarfélagsins haldist óbreytt milli ára og lækki því að raungildi. Hér er um kjarabætur að ræða fyrir fjölmargar barnafjölskyldur í bænum og er þetta t.d. annað árið í röð sem leikskólagjöld hækka ekki. Fjárhagáætlunin gerir auk þessa ráð fyrir auknum niðurgreiðslum á fasteignagjöldum fyrir tekjulága eldri borgara.

Þjónusta við barnafjölskyldur aukin og bætt
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir aukinni þjónustu og auknum niðurgreiðslum, einkum til barnafjölskyldna. Verulegir fjármunir verða settir í að auka þjónustu við börn 1-2ja ára. Stofnaðar verða ungbarnadeildir við tvo leikskóla bæjarins þar sem pláss verður fyrir um 30 börn á þessum aldri, auk þess sem plássum verður fjölgað á einkareknum leikskólum í nágrenni sveitarfélagsins fyrir börn úr Mosfellsbæ. Auk þessa verða niðurgreiðslur auknar talsvert þannig að frá 18 mánaða aldri er greitt fyrir börn sama gjald, hvort sem þau eru á leikskólum bæjarins, á einkareknum skólum eða hjá dagforeldrum.
Haldið verður áfram að stuðla að íþrótta- og tómstundaiðkun barna með hækkun frístundaávísunar um 18%. Það er til viðbótar þeim breytingum sem gerðar voru í haust þegar frístunda­ávísunin var hækkuð verulega til barnmargra fjölskyldna. Fjárhagsáætlunin gerir einnig ráð fyrir því að fjármunir verði settir í að koma upp skipulögðu ungmennastarfi á vegum Mosfellsbæjar í nafni Ungmennahúss sem hafi aðstöðu í Framhaldsskólanum, sem og að Listaskólinn verði efldur til að geta sinnt fleiri nemendum og að tónlistarnám verði aukið innan grunnskólanna.
Hér hafa verið nefnd nokkur af þeim atriðum þar sem þjónusta við bæjarbúa er aukin til muna. Hægt er að skoða áætlunina í heild sinni inni á vef bæjarins www.mos.is.

Uppbygging heldur áfram – nýr grunnskóli byggður
Mikil uppbygging á sér stað í Mosfellsbæ um þessar mundir og aðeins í Helgafellshverfi einu hafa verið gefin út byggingarleyfi fyrir ríflega 400 íbúðum. Þessi mikla uppbygging kallar á fjárfestingar í innviðum. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að fjárfest verði fyrir tæplega 800 mkr. að frádregnum gatnagerðargjöldum. Þar er stærsta einstaka framkvæmdin bygging Helgafellsskóla en gert er ráð fyrir að í þá framkvæmd fari um 500 mkr. á árinu 2017.
Fyrsti áfangi skólans verður tekinn í notkun haustið 2018. Auk þess er gert ráð fyrir töluverðum fjármunum í framkvæmdir við íþróttamannvirki með áherslu á Varm­ársvæðið. Auk þess er í skoðun bygging fjölnota íþróttahallar í einkaframkvæmd í samvinnu við Ungmennafélagið Aftureldingu. Fé er áætlað í endurbætur á eldri byggingum bæjarfélagsins og einkum er þar horft til Varmárskóla sem þarfnast viðhalds.

Hér hefur verið stiklað á stóru um þau atriði sem tillaga að fjárhagsáætlun felur í sér. Mosfellsbær er vel rekið sveitarfélag og það er ánægjulegt að svigrúm hafi skapast fyrir því að geta bætt hag bæjarbúa með aukinni þjónustu og lækkun skatta og gjalda eins og stefnt er að.
Það er gott að búa í Mosfellsbæ og það er okkar vilji sem störfum í hans þágu að svo verði áfram.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri