Gönguferðir og fræðsla

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Það er margsannað hvað hreyfing og mataræði hefur mikil áhrif á heilsuna. Hreyfing þarf ekki að vera svo mikil og mataræði ekki að vera mjög sérhæft eða ýkt til að skila bættri heilsu.
Við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ viljum stuðla að bættri heilsu og skipulögðum gönguhópi sem hefur það að markmiði að hjálpa fólki að taka ábyrgð á eigin heilsu. Gönguhópurinn er fyrir alla sem þurfa heilsu sinnar vegna að hreyfa sig eða þá sem langar bara í göngutúr í góðum félagsskap.
Gengið er tvisvar í viku í 30 til 40 mínútur, á hraða sem hentar hverjum og einum. Ekki er ætlunin að keppa að því að verða fyrstur eða komast í keppnisform. Til þess er nóg af lausnum í boði hjá líkamsræktarstöðum og fleiri aðilum. Það að ganga með fleirum á fyrirfram ákveðnum tíma gerir það mun líklegra að maður fari af stað eða haldi sig við efnið til lengri tíma. Það er líka alkunna að maður er manns gaman og er þetta upplagt tækifæri til að fara í göngutúr í góðum félagsskap.
Til viðbótar við göngurnar verða fræðslukvöld einu sinni í mánuði um hreyfingu, mataræði og helstu lífsstílssjúkdóma. Þannig getur fólk betur tileinkað sér venjur sem eru um leið forvörn fyrir ýmsa lífsstílssjúkdóma eða, ef einhver slíkur er þegar til staðar, hjálpað fólki að tileinka sér lífsstíl til að vinna gegn sjúkdómnum. Í fræðslunni er miðað við sannreyndar og viðurkenndar upplýsingar og ekki fjallað um sérstaka kúra eða tískubólur tengdar mataræði.
Til að styrkja okkur enn frekar munum við elda saman hollan og góðan mat einu sinni í mánuði og fá sérfræðinga til að miðla til okkar hvernig hægt er að hafa mataræðið hollt, gott og fjölbreytt.
Gengið er á mánudögum og fimmtudögum klukkan 16.15 frá Rauða kross húsinu í Þverholti 7 Mosfellsbæ. Mikilvægt er að tilgangur hreyfingarinnar er ekki að komast í keppnisform eða að vera fyrstur heldur er markmiðið að stunda hreyfingu sem stuðlar­ að eigin heilbrigði.
Nánari upplýsingar: hulda@redcross.is eða í síma: 898 6065.

Katrín Sigurðardóttir hópstjóri verkefnisins
og ritari í stjórn Rauða krossins í Mosfellsbæ