Þjónustusvæðið á landi Skálatúns fær nafnið Farsældartún

Dómnefnd ásamt verðlaunahöfunum þremur í nafnasamkeppninni. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Guðrún Birna Einarsdóttir, Sigurveig Gunnarsdóttir, Gerður Pálsdóttir, Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi og Ragnar Jónsson á auglýsingastofunni TVIST.

Á Skálatúni hefur um árabil verið búsetusvæði fyrir fatlað fólk sem var rekið af IOGT á Íslandi. Vorið 2023 hætti IOGT á Íslandi þeirri starfsemi og þjónusta við íbúa á Skálatúni er nú á höndum Mosfellsbæjar en eignarhald fasteigna á svæðinu í eigu nýs aðila, Skálatúns, sjálfseignarstofnunar í þágu barna, ungmenna og fjölskyldna.
Til stendur að byggja upp þjónustusvæði fyrir börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á svæðinu og mun svæðið því taka vissum breytingum. Í ljósi þessara breytinga var ákveðið að halda nafnasamkeppni í þeim tilgangi að fá nýtt nafn á svæðið sem mun sinna breyttum verkefnum þegar svæðið hefur verið byggt upp.

Þrír sigurvegarar með sama nafnið
Niðurstaða dómnefndar í nafnasamkeppni fyrir uppbyggingu á svæðinu í landi Skálatúns í Mosfellsbæ er: Farsældartún.
Dómnefnd var skipuð þremur fulltrúum, Ásmundi Einari Daðasyni f.h. mennta- og barnamálaráðuneytisins, Önnu Sigríði Guðnadóttur bæjarfulltrúa, f.h. Mosfellsbæjar og Ragnari Jónssyni, f.h. auglýsingastofunnar TVIST.
Leitað var til almennings um tillögur að nafni. Samkeppnin var auglýst sérstaklega á heimasíðu Mosfellsbæjar og í bæjarblaðinu Mosfellingi. Enn fremur var þremur opinberum stofnunum gert sérstaklega viðvart um samkeppnina og þær hvattar til að fá sitt fólk til að taka þátt. Um það bil 150 tillögur bárust.
Niðurstaða dómnefndar var að velja heitið Farsældartún úr innsendum nafnatillögum.
Þrír aðilar stungu upp á nafninu, þær Guðrún Birna Einarsdóttir, Sigurveig Gunnarsdóttir og Gerður Pálsdóttir og var þeim veitt viðurkenning í vikunni.

Farsæld barna í forgrunni
Orðið farsæld merkir samkvæmt orðabók „það að farnast vel í lífinu“. Samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, farsældarlögunum, merkir farsæld barns þær „aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.“
Starfsemin sem mun fara fram í Farsældartúni mun einmitt miða að því að farsæld barna verði náð og því skýrt samhengi milli þess sem fara mun þar fram og heitis svæðisins.
Dómnefndin taldi að vísan þess heitis í tún væri m.a. vísan í gamla tíma þar sem fyrra heiti svæðisins var Skálatún. Einnig að þannig væri vísað í hefðir Mosfellsbæjar eins og bæjarhátíðina „Í túninu heima“. Þá eru tún tákn um ræktun, grósku og uppskeru, sem vísar til þess starfs sem fara mun fram á svæðinu þegar það hefur verið byggt.
Nafnið gefur einnig tækifæri til þess að skapa samverusvæði á reitnum sem gæti kallast Farsældartún, en þar mætti hafa leiktæki og annað sem hvetur til jákvæðrar og uppbyggjandi samveru barna, ungmenna og fjölskyldna.
Dómnefnd hvetur Mosfellsbæ einnig til þess að haga því þannig til að götuheiti á svæðinu beri nafnið Farsældartún og byggingar á svæðinu standi því við Farsældartún nr. 1, 2, 3, o.s.frv.
Fljótlega verður farið í deiliskipulagsvinnu á svæðinu en markmiðið er að þarna verði á einum stað helstu stofnanir og samtök sem koma að þjónustu við börn og ungmenni auk úrræða fyrir börn með fjölþættan vanda.