Jökla og Ístex efna til hönnunarsamkeppni

Ullin og Jökla er yfirskrift hönnunarsamkeppni sem Jökla stendur að um þessar mundir í samvinnu við Ístex í Mosfellsbæ.
Markmið keppninnar er að styðja íslenskan prjónaiðnað, listiðnað, hönnun og frumleika fyrir íslensku ullina sem og nýsköpun fyrir íslenskan landbúnað.
„Keppnin gengur út á að hanna peysu úr íslenskri ull með merki eða hönnun Jöklu rjómalíkjörs sem vitnar í hina margrómuðu og ísköldu Jöklu sem streymir niður árfarveginn til hafsins,“ segir Pétur en fagleg dómnefnd velur best hönnuðu peysurnar.

Íslensk mjólkurafurð
Mosfellingarnir og frumkvöðlahjónin Pétur Pétursson og Sigríður Sigurðardóttir voru í mörg ár að þróa íslenska rjómalíkjörinn Jöklu. Pétur er mjólkurfræðingur að mennt og mikill áhugamaður um framleiðslu íslenskra mjólkurafurða.
„Hugmyndin um fyrsta íslenska rjómalíkjörinn kviknaði á ferðalagi um Ítalíu þegar við borðuðum hjá ítölskum bónda sem framleiddi sinn eigin mjólkurlíkjör. Það tók mörg ár að fullkomna uppskriftina, en loksins, árið 2021, kom lokaafurðin í hillur verslana ÁTVR,“ segir Pétur.

Mosfellskt samstarf
Þrjár peysur verða valdar í vinningssæti og einnig verða veitt verðlaun fyrir frumlegustu peysuna. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir vinningssætin, að andvirði hálfrar milljónar í heildina.
Peysurnar skulu berast nafnlausar en merktar með einkunnarorði/dulnefni eða númeri og þeim skal fylgja umslag sem inniheldur upplýsingar um þátttakanda.
„Skila þarf inn peysunum fyrir 29. maí til Ístex að Völuteigi 6 í Mosó.
Úrslitakvöldið verður svo haldið í Hlégarði þann 31. maí þar sem einnig verður kynning á vörum sem tengjast nýsköpun í landbúnaði,“ segir Pétur að lokum og er spenntur að sjá hvaða listaverk koma út úr þessari samkeppni og hvetur sem flesta til þátttöku. Hann veitir nánari upplýsingar í gegnum netfangið petur@joklavin.is eða á www.jokla.com.