Bankinn kominn í nýjar hendur

Ragnheiður Þengilsdóttir afhendir Kára Guðmundssyni lyklana að Bankanum.

Það er komið að tímamótum á veitingastaðnum Bankanum Bistro í Þverholtinu. Eftir að hafa rekið Bankann Bistro (áður Barion) í tæp 5 ár, afhenda hjónin Ragnheiður Þengilsdóttir og Óli Valur Kára Guðmundssyni lyklana.
„Ég var þjónustustjóri í Arion Mosó og þegar útibúinu var lokað í kjölfar breytinga árið 2018 kom upp tækifæri til að kaupa húsið og umbreyta því í hverfisstað Mosfellinga. Óli Valur sem rekur eigið byggingafyrirtæki fjárfesti í húsinu og sá um umbreytinguna.
Eftir að hafa „brotist inn“ í bankann og farið í miklar framkvæmdir opnuðum við Barion, sem varð að Bankanum, 1. desember 2019,“ segir Ragnheiður.

Krefjandi og skemmtilegur tími
„Markmiðið var að skapa skemmtilegan hverfisstað fyrir Mosfellinga og teljum við að nokkuð vel hafi tekist til. Í Bankanum hefur fjöldi Mosfellinga komið og notið þess að borða saman, spila bingó, hlusta á góða tónlistamenn, hitað upp fyrir Aftureldingarleiki og skemmt sér án þess að þurfa að fara út fyrir bæjarmörkin. Við höfum haldið skákmót og einnig boðið krökkum í Mosfellsbæ í bíó í vetrarfríum og reynt að leggja okkar af mörkum til þess að gera Mosfellsbæ fjölskylduvænan.“
„Það er búið að vera bæði krefjandi og skemmtilegt að reka Bankann í erfiðu rekstrarumhverfi – sérstaklega þar sem við opnuðum staðinn rétt fyrir Covid-faraldurinn. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við höfum fengið og afhendum glöð Kára lyklana,“ segir Ragnheiður.

Grindvíkingur tekur við lyklunum
„Við vorum svo heppin að kynnast Kára í gegnum sameiginlegan vin. En Kári rak Fish House í Grindavík sem var mjög vinsæll veitingastaður og skemmtistaður Grindvíkinga allt fram til þess að rýma þurfti bæinn í kjölfar eldgoss,“ segir Ragnheiður.
„Við erum búin að vera í samstarfi við Kára undanfarna mánuði og afrakstur þess er að Kári hefur tekið við rekstri Bankans að fullu. Við óskum Kára alls hins besta með framhaldið og hlökkum til að njóta áfram þess að hafa flottan hverfisstað í hjarta bæjarins.
Við hjónin munum ekki sitja auðum höndum en við rekum áfram átta aðra veitingastaði. Við erum að hefja sjöunda rekstrarár okkar með Hlöllabáta og einnig rekum við Mandí staðina sem við tókum yfir árið 2022.“
Kári tekur fullur tilhlökkunar við lyklunum og stefnir að því að bjóða áfram upp á góðan mat og skemmtilega viðburði. Einhverjar breytingar eru í kortunum eins og gengur og gerist með nýjum eigendum og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.