Látum verkin tala

Kristín Thoroddsen

Íslendingar eru í grunninn samheldin þjóð og þegar á reynir stöndum við saman og klárum verkefnin. Áskoranir komandi missera verða margvíslegar og þar er einna stærsta verkefnið uppbygging og endurreisn atvinnulífsins.
Með því að taka lítil en ákveðin skref munum við komast í gegnum verkefnin. En til að halda uppi traustu og öflugu atvinnulífi þurfum við sterka einstaklinga, unga sem aldna og sterka forystu. Við þurfum að hlúa að fólkinu til að gera því kleift að takast á við verkefnin, fyrir okkur öll.

Stöndum með unga fólkinu okkar – framtíðaríbúum landsins
Á undanförnum árum hefur unga fólkið okkar þurft að færa fórnir og setja líf sitt á hilluna um stund og það er aðdáunarvert hvernig því hefur tekist það. Inn á milli leynast þó brotnir einstaklingar, líklega fleiri en okkur grunar, sem þurfa stuðning og skýr markmið fyrir framtíðina. Við státum okkur af sterku heilbrigðiskerfi og sterku menntakerfi. En erum við að gera allt sem við getum til að grípa unga fólkið?
Við höfum félagsmiðstöðvar fyrir ungt fólk að 16 ára aldri en eftir situr hópur ungs fólks á aldrinum 16-25 ára sem þarf á stuðningi að halda. Sem formaður fræðslumála hjá Hafnarfjarðarbæ og bæjarfulltrúi veit ég að líðan fjölda ungs fólks er alls ekki góð núna eftir COVID. Það er því einstaklega mikilvægt að nýta öll þau úrræði sem til eru. Þekking og reynsla er til staðar, en hún er dreifð og óaðgengileg. Það er því mikið baráttumál að stofnað verði miðlægt þekkingarsetur sem Samfés hefur nú þegar unnið grunninn að.
Meginmarkmið verkefnisins er að ná til þeirra sem vinna með ungu fólki á öllu landinu og tryggja þannig samræmt faglegt starf. Slíkt setur hefði það einnig að markmiði að veita ungu fólki stuðning, styðja við erlent samstarf, samþætta vinnu fagfólks og veita ráðgjöf og stuðning. Það ætti að vera baráttumál allra sem að stjórnmálum koma að veita þessu verkefni brautargengi. Ég mun leggja mitt af mörkum til að þekkingarsetur muni verða að veruleika, til að við getum stolt sagst hafa staðið með framtíð landsins og ungu fólki, hvar sem það er búsett á landinu.

Sköpum skilyrði fyrir fólk og fyrirtæki
Til að standa með unga fólkinu okkar er mikilvægt að bakland þess sé sterkt. Öll þekkjum við til fjölskyldna þar sem annar eða jafnvel báðir hafa misst vinnuna og standa höllum fæti sem hefur áhrif á alla fjölskylduna. Við erum baráttuþjóð sem breytir vandamálum í verkefni. Sköpum skilyrði svo hugmyndir fólks fái að vaxa og dafna.
Með því að styðja við einkaframtakið, treysta fólkinu og fyrirtækjum til að skapa hér vinnu og verðmæti munum við áður en langt um líður verða sterkari til að takast á við framtíð okkar og framtíð barna okkar. Þannig getum við byggt upp sterkt samfélag, þannig verðum við sterkari til að bregðast við áskorunum unga fólksins og þannig munum við leysa verkefni nánustu framtíðar. Látum verkin tala og bregðumst strax við vandanum. Við þekkjum söguna, við þekkjum afleiðingarnar. Sofnum því ekki á verðinum!

Kristín Thoroddsen bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
Höfundur býður sig fram í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem fram fer 10.-12. júní.