Þakklát fyrir traustið

Regína Ásvaldsdóttir tók við sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ 1. september 2022. Hún býr yfir víðtækri reynslu af stjórnun og rekstri á vettvangi sveitarstjórnarmála og hefur átt sæti í fjölmörgum stjórnum og starfshópum.

Regína segist þakklát fyrir það traust sem henni var sýnt með ráðningunni, fram undan séu stór verkefni, meðal annars í uppbyggingu og stefnumótun til framtíðar.

Regína fæddist í Reykjavík 30. júní 1960. Foreldrar hennar eru þau Erna María Jóhannsdóttir fv. þjónustufulltrúi hjá Sýslumanninum í Kópavogi og Ásvaldur Andrésson bifreiðasmiður en hann lést árið 2020.

Regína á tvær systur, Hönnu Sveinrúnu f. 1956 og Ragnhildi f. 1966.

 

Varði mörgum stundum í Birkihlíð

„Ég bjó fyrstu árin mín í Birkihlíð í Kópavogi með foreldrum mínum og eldri systur á meðan foreldrar mínir byggðu sér hús í Löngubrekku sem var skammt frá. Í Birkihlíð ráku afi minn og amma gróðrarstöð og þar varði ég mörgum stundum á mínum uppvaxtarárum.

Ég gekk í Kópavogsskóla og síðar Víghólaskóla, lærði að lesa fjögurra ára gömul og leiddist oft í skólanum fyrst árin því mér fannst ég ekki hafa nóg fyrir stafni, ég var frekar baldin sem barn og unglingur.

Ég vann alltaf á gróðrarstöðinni á vorin frá 10 ára aldri en seinni hluta sumars var ég í alls konar störfum, m.a. að passa börn í Neskaupstað, í sveit á Sómastöðum við Reyðarfjörð og síðar við afgreiðslustörf í Njarðarbakaríi og í mötuneytinu á Hrafnistu.“

 

Meistarapróf frá Skotlandi

„Eftir landspróf fór ég í Menntaskóla Kópavogs en á sumrin starfaði ég á hóteli í Balestrand í Sognfirði í Noregi. Eftir annan bekk tók ég ársfrí með vinkonum mínum og við fórum í langa Evrópuferð eftir sumarið í Balestrand. Við störfuðum á vínræktarbúgarði í Suður-Frakklandi og síðan í skíðabænum Geilo í Noregi. Ég kláraði svo stúdentsprófið árið 1981.“

Eftir útskrift úr menntaskóla fór Regína í nám til Noregs og lærði afbrotafræði og félagsráðgjöf. Hún bætti svo við sig diplóma námi í opinberri stjórnsýslu og eftir það fór hún til Skotlands í háskólann í Aberdeen þar sem hún tók meistarapróf í hagfræði með áherslu á breytingastjórnun og nýsköpun.

 

Í frábærum golfhópi

Regína er gift Birgi Pálssyni deildarstjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu en þau kynntust árið 1992. Regína á tvær dætur frá fyrra hjónabandi, Ernu Maríu f. 1981 sem starfar sem flugmaður hjá Icelandair og Ýr f. 1984 sem er fatahönnuður. Birgir á eina dóttur,  Auði Kolbrá f. 1989, en hún starfar sem lögfræðingur hjá Kópavogsbæ.

„Ég hef brennandi áhuga á starfinu mínu og öllu því sem viðkemur rekstri Mosfellsbæjar og það tekur svolítið yfir núna,“ segir Regína aðspurð um áhugamálin. „Golf er aðaláhugamál okkar hjóna en Birgir stundar það betur en ég þótt mér finnist dásamlegt á vellinum þegar ég gef mér tíma. Við erum í frábærum golfhópi með vinum okkar og ferðumst mikið saman. Ég er að sjálfsögðu búin að skrá mig í Golfklúbb Mosfellsbæjar og finnst skemmtilegt að taka kvöldstund á Bakkakotsvellinum.

Við erum líka í gönguhópi á vegum Ferðafélagsins en mér finnst mjög gaman að klífa fell og fjöll og svo keyptum við okkur lítinn sumarbústað í landi Efstadals fyrir þremur árum og höfum verið að gera hann upp og það fer nú töluverður tími í það líka.“

 

Þakklát fyrir traustið

Regína hefur tekið að sér ýmis krefjandi störf í gegnum tíðina, hún starfaði sem félagsmálastjóri í Skagafirði, við velferðarþjónustu, stýrði þjónustumiðstöðinni Miðgarði í Grafarvogi, var skrifstofustjóri og staðgengill borgarstjórans í Reykjavík auk þess að sinna víðtækum stjórnkerfisbreytingum, bæjarstjóri á Akranesi og sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Auk stjórnunarstarfa hefur Regína verið stundakennari við Háskólann á Bifröst og við Háskóla Íslands.

„Ég hóf störf í Mosfellsbæ 1. september 2022 og er gríðarlega þakklát fyrir traustið sem mér var sýnt að fá að stýra þessum fallega bæ. Mosfellsbær hefur orð á sér fyrir að vera mjög fjölskylduvænn bær og það er mikilvægt að þær áherslur haldi sér.

„Ég er í einstaklega góðu sambandi við oddvitana þrjá sem mynduðu meirihlutann, þær Höllu Karen, Önnu Sigríði og Lovísu og við ræðum okkur í gegnum mál á hreinskiptinn hátt sem ég met mikils.

Ég er líka ánægð með samstarfið við alla bæjarstjórnina og hef lagt mig fram við að kynna stór mál sem eru í gangi á sérstökum vinnufundum með öllum fulltrúum hvort sem þeir eru í meiri- eða minnihluta. Auðvitað kastast stundum í kekki eins og oft vill verða í pólitík vegna einstakra mála en í langflestum tilvikum tekst að ná sátt um mikilvæg mál.“

 

Góður hópur starfsfólks

„Það er einstaklega góður hópur fólks sem starfar hjá Mosfellsbæ, hópur sem hefur mikinn metnað. Stofnanir bæjarins eru mjög vel reknar með sterkum stjórnendum en auðvitað getur ýmislegt komið upp á eins og óvæntar framkvæmdir með tilheyrandi kostnaði.

Rekstur Skálatúns hefur verið erfiður en það náðist að lenda því máli farsællega í samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið og innviðaráðuneytið. Á landi Skálatúns munu rísa byggingar sem eru ætlaðar til þjónustu við börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra og Mosfellsbær mun þjónusta fatlaða íbúa Skálatúns eins og aðra fatlaða einstaklinga sem búa í bænum.“

 

Mikil uppbygging

„Breytingar hafa verið gerðar á stjórnsýslu bæjarins sem ég vona að verði til góðs þar sem við leggjum meðal annars áherslu á stafrænar breytingar. Það sem við erum í vanda með eins og mörg sveitarfélög sem eru í örum vexti er skuldastaðan sem er erfið á þessum verðbólgutímum. Hér hefur verið mikið byggt upp, meðal annars nýr grunnskóli í Helgafellslandi og við vorum að skrifa undir samning við fyrirtækið Alefli ehf.  í Mosfellsbæ um byggingu nýs leikskóla. Lóðin er erfið og þetta verða því miður kostnaðarsamar framkvæmdir en við munum fá mjög vandaðan og góðan 150 barna leikskóla í hverfið.

Nýtt gervigras var sett á æfingavöllinn við Varmá og við erum að skoða frekari framkvæmdir á Varmársvæðinu. Þá er að hefjast uppbygging á viðbyggingu við hjúkrunarheimilið í bænum með 66 viðbótarrýmum.“

 

Í túninu heima um helgina

„Fjölmargt skemmtilegt er fram undan, menningarlífið blómstar og Hlégarður hefur fengið aukið hlutverk eftir að við réðum Hilmar Gunnarsson sem viðburðastjóra. Bæjarhátíðin Í túninu heima er svo á næsta leiti, hátíðin er sannkölluð fjölskylduhátíð sem stendur í þrjá daga og það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í fjölbreyttri dagskrá.

Við vorum að ráða fleira fólk inn í stjórnendateymið okkar og væntum mikils af þeim góða hópi. Það er því ekki hægt að segja annað en að framtíðin sé björt hér í Mosfellsbæ með áframhaldandi uppbyggingu í þágu bæjarbúa,” segir Regína og brosir þegar við kveðjumst.