Hjálmurinn bjargaði miklu

Rúnar Óli var tvo sólarhringi inni á gjörgæslu.

Rúnar Óli Grétarsson, 15 ára Mosfellingur, lenti í alvarlegu reiðhjólaslysi þann 15. ágúst í Álafosskvosinni.
Rúnar Óli var á leið heim úr vinnu en hann hefur verið að vinna sem leiðbeinandi við skátanámskeið í sumar. Hann missir stjórn á hjólinu á mikilli ferð og stingst beint fram fyrir sig með alvarlegum afleiðingum.
„Sjúkrabíllinn var fljótur á staðinn og í fyrstu virtust meiðslin ekki eins alvarleg og síðar kom í ljós. En Rúnar Óli hlaut miklar innvortis blæðingar, rifið milta, úlnliðsbrot á annarri hendi og stóran og ljótan skurð á hinni hendinni auk þess að vera marinn og krambúleraður.
Hann var tvo sólarhringa á gjörgæslu og var í framhaldinu fluttur á Barnaspítalann þar sem hann er ennþá en vonast til að vera kominn heim fyrir næstu helgi,“ segir Eva Ósk Svendsen móðir Rúnars Óla.

Afleiðingar slyssins hefðu verið alvarlegri
Þau mæðgin vilja fyrst og fremst greina frá þessu slysi í forvarnaskyni því hjálmur Rúnars Óla bjargaði miklu. Rúnar Óli er virkur í björgunarsveitinni og vill því leggja mikla áherslu á forvarnir eins og að vera með hjálm á hjóli, alveg sama á hvað aldri einstaklingurinn er.
„Læknarnir á gjörgæslunni töluðu um að það væri ekki sjálfsagt að 15 ára unglingsdrengur væri með hjálm en að það væri alveg á hreinu að afleiðingar slyssins hefðu orðið meiri og alvarlegri ef hann hefði ekki verið með hjálminn.
Sem betur fer slapp hann við að fara í aðgerð vegna innvortis blæðinga en fram undan er langt og strang bataferli,“ segir Eva Ósk að lokum og vill koma á framfæri þakklæti fyrir stuðning til fjölskyldunnar.