Pop-up kaffihús í Lágafellslaug

Fimmtudaginn 24. ágúst opnar Kaffisæti pop-up kaffihús í Lágafellslaug. Eftir að hafa byrjað mjög seint að drekka kaffi hefur Andrés Andrésson hent sér út í djúpu laugina og meira til. Baristanámskeið í Flórens á Ítalíu, heimsókn í kaffiræktun á Gran Canaria og samtöl við fólk úr bransanum.
„Þetta eru ákveðin kaflaskil hjá mér eftir að hafa unnið skrifstofustarf síðustu 15 ár. Mig langaði að breyta til og prófa eitthvað allt annað. Það er mikil spenna í bland við hæfilegt magn af stressi fyrir þessu öllu.“

Ég elska góðan espresso
Hvernig byrjaði þetta allt saman?
„Ég á það til að byrja ný áhugamál af miklum móð en oft hverfur áhuginn á nokkrum vikum. Það gerðist hins vegar ekki með kaffið, og áður en ég vissi af var ég byrjaður að lesa doktorsverkefni um hvernig á að gera espresso. Ég elska góðan espresso.
„Síðasta vetur ákvað ég að best væri að fara til mekka espressogerðar og læra af meisturunum á Ítalíu og ég sé sko ekki eftir því. Það er miklu skemmtilegra að hitta fólk og læra af því heldur en að horfa endalaust á YouTube. Eftir þessa ferð var ekki aftur snúið.“

Getur aukið lífsgleðina
Hvernig er ítölsk kaffimenning miðað við íslenska?
„Fyrir það fyrsta þá er kaffi bara espresso. Ekkert sem heitir espresso. Magn af kaffi, og þar af leiðandi koffíni, er minna í hverjum bolla. Það leyfir manni að drekka fleiri kaffidrykki yfir daginn, sem er kostur fyrir kaffiþyrsta. Einnig er vinsælt að hittast í kaffi en það eru miklu styttri hittingar heldur en hér heima. Kannski bara 10 mín, rétt til að taka stöðuna á vinunum. Svo fleiri kaffibollar og fleiri samtöl, það getur bara aukið lífsgleðina.“

Gera eitthvað fyrir Mosfellinga
En af hverju Lágafellslaug?
„Ég vildi einfaldlega gera eitthvað skemmtilegt fyrir Mosfellinga. Mér datt Lágafellslaug í hug þar sem aðstaðan er til fyrirmyndar en mér fannst vanta að geta fengið sér gott kaffi. Ég ræddi við bæinn og allir tóku bara vel í þessa hugmynd.“
Kaffisæti verður með opið 10-14 frá fimmtudeginum 24. ágúst og fram á sunnudag. Svo verður opið á sama tíma fyrstu þrjár helgarnar í september (laugardag og sunnudag).