Þægindi og tímasparnaður fyrir fjölskyldur
Matarboxið er ný þjónusta fyrir fólk sem vill þægindi og tímasparnað við undirbúning máltíða fyrir fjölskylduna.
Nýverið opnaði fyrirtækið Matarboxið í Desjamýri 1. Það eru þau Guðrún Helga Rúnarsdóttir og Sveinn Matthíasson sem eiga og reka Matarboxið. Matarboxið býður upp á heilsusamlegt, fjölbreytt gæðahráefni ásamt uppskriftum fyrir alla fjölskylduna sem raða má saman að óskum hvers og eins.
„Minn grunnur er að ég er næringarráðgjafi,“ segir Guðrún Helga. „Það sem ég hef rekið mig á þegar ég er að hjálpa fólki er að það er ekkert mál að segja því hvernig það á að borða. Vandamálið er að fara í búðina, kaupa inn ný hráefni og fara heim og elda.
Matarboxið er einfalt, þú pantar, við tökum saman pöntunina og sendum þér heim að dyrum þér að kostnaðarlausu,“ segir Guðrún Helga.
Hollur matur úr úrvals hráefni
Á heimasíðunni matarboxid.is er að finna fjölbreytt úrval rétta sem fólk getur valið og fengið senda heim. Hægt er að velja fyrirfram ákveðin box eða velja sinn eigin matseðil. Hægt er að fá alla rétti fyrir annað hvort tvo eða fjóra einstaklinga.
„Matarboxið er þjónusta fyrir fólk sem vill borða fjölbreyttari og hollari mat úr úrvalshráefni, prófa nýja rétti, vill aukin þægindi og minnka matarsóun og kostnað.
Fólk fær senda til sín þá rétti sem það velur, allt hráefni sem til þarf og uppskrift. Það sparar tímann að fara í búðina og notar hann frekar til að elda heima.“
Bjóða upp á fjölbreytt val
„Við bjóðum upp á 10-15 rétti í hverri viku og skiptum út matseðlinum vikulega. Við setjum saman box með þremur réttum. Núna bjóðum við upp á Box vikunnar og Veganbox og ætlum svo að bæta við Lágkolvetnaboxi fljótlega.
Það sem okkur sýnist vera vinsælast hjá fólki er að blanda saman réttunum og jafnvel taka mismunandi rétti fyrir fjölskylduna. Það er hægt að panta hjá okkur og fá heimsent alla virka daga.
Við opnuðum í desember og þetta hefur farið vel af stað, við erum opin fyrir öllum ábendingum. Við ætlum að mæta þörfum viðskiptavina okkar á sem bestan hátt,“ segir Guðrún Helga að lokum og bendir fólki á heimasíðuna þeirra þar sem allar upplýsingar að finna.