Takk og 20 mínútur

Það er margt í kollinum núna. Þakklæti til dæmis. Hitti góðan mann í síðustu viku sem vann fyrir íþróttafélag í fimm ár, en er nú kominn í nýtt starf. Hann sagðist hafa saknað þess að hafa ekki heyrt oftar frá fólki á jákvæðum nótum, fólk var duglegt að hringja þegar eitthvað var að, en nánast aldrei til að hrósa. Þetta er jákvæður og hress náungi og þetta er hárrétt hjá honum, það verður að muna að hrósa og sýna þakklæti fyrir það sem vel er gert. Ég gríp boltann og segi stórt takk til allra ykkar starfsmanna og sjálfboðaliða hjá íþróttafélögum Mosfellsbæjar. Ég veit að það er margt á ykkar könnu og að þið gerið ykkar besta.

Ég er líka að velta fyrir mér áherslum frambjóðenda og flokka, sérstaklega á sviði íþrótta og heilsueflingar. Það eru margir góðir í framboði og ég er bjartsýnn á framtíð Mosfellsbæjar. Ég er óflokksbundinn og verð það áfram, en ég lofa hér með atkvæði á þá sem vilja og ætla hugsa stórt og byggja Íþróttaþorp á Varmársvæðinu. Íþróttaþorp með aðstöðu fyrir íþróttamenn og almenning til að æfa, borða, setjast niður og ræða málin, horfa á beinar útsendingar, fara í nudd, fá sjúkraþjálfun, og svo framvegis. Allt á einum stað. Íþróttahjarta Mosfellsbæjar. Hugsanlega þarf að fórna einhverju svo þetta geti orðið og endurmeta þörf og áhuga íbúa á aðstöðu og íþróttagreinum, núna og til framtíðar. Ekki festast í halda í aðstöðu og byggingar bara af því að þær stóðu einu sinni fyrir sínu og voru vel nýttar. Hvað er til dæmis oft (full)setið í stúkunni við aðalvöllinn okkar?

Svo er hér æfingaáskorun fyrir þá sem eru að byggja sig upp fyrir fella- og fjallgöngur í sumar. 20 mínútur, framstigsganga og jafnfætis stökk til skiptist. Utanvegar, helst eitthvað upp í móti. Njótið!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 13. janúar 2022