Loftgæðamælingar hefjast hjá Mosfellsbæ

Á fundi umhverfisnefndar Mosfellsbæjar hinn 24. júní 2021 var lögð fram tillaga um uppsetningu loftgæðamælanets í Mosfellsbæ sem yrði hluti heildarnets sem til stendur að koma upp á öllu höfuðborgarsvæðinu. Umhverfisnefndin sammæltist um að koma uppsetningu loftgæðamælanets í framkvæmd enda samræmdist það vel megináherslum í umhverfisstefnu Mosfellsbæjar.
Í kjölfarið heimilaði bæjarráð gerð samnings við Resource International um uppsetningu loftgæðamælakerfis í Mosfellsbæ.
Fyrirtækið mun halda utan um loftgæðamælingar í Mosfellsbæ og víðar á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið er unnið í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis þar sem eftirlit með loftgæðum er á þeirra verksviði. Gert er ráð fyrir að í Mosfellsbæ verði að minnsta kosti þrír mælar á mismunandi stöðum innan bæjarins með sérstaka áherslu á að mæla loftgæði við útisvæði skóla.

Viljum búa yfir bestu upplýsingum á hverjum tíma
„Við Mosfellingar erum stolt af okkar fallega og góða umhverfi og viljum búa yfir bestu upplýsingum á hverjum tíma til að vernda loftgæði og þar með lífsgæði íbúa. Reglubundnar loftgæðamælingar eru ein af þeim aðgerðum sem lagðar voru til í málefnasamningi V- og D-lista í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og kemst nú til framkvæmdar með þessum farsæla og hagkvæma hætti,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri.