Súrefni

Ég var úti í morgun með æfingahópnum. Við tökum daginn snemma tvisvar í viku og æfum úti, sama hvernig viðrar. Mér líður vel þegar ég æfi, bæði sjálfur og með öðrum og hvort sem ég er inni eða úti. Þessi tilfinning að hreyfa sig, liðka og styrkja er svo öflug, bæði fyrir líkama og sál.

En það er best að vera úti. Það gefur mér mesta orku. Og orkuskammturinn stækkar í góðum félagsskap. Margfaldast.

Núna þegar kóvidið heldur áfram að djöflast í okkur og okkur er reglulega kippt niður á jörðina og send í smitgát, sóttkví eða einangrun er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að finna leiðir til þess ná okkur í endurnýjanlega orku. Endurnýjanlega orku fyrir okkur sjálf, það er ekki nóg að hugsa bara um bílinn.

Ég ætla ekki að skrifa hér að það sé ekki í boði núna að vera fúll og hengja haus. Það er auðvelt að segja það þegar maður þarf ekki að hafa áhyggjur af afkomu sinni heldur getur einbeitt sér að því að hafa vit fyrir öðrum. Ég ætla frekar að segja að ég sjálfur eins og aðrir sem hafa þurft endurskipuleggja (vinnu)lífið og tilveruna vegna kóvid og alls þess sem því fylgir, verðum að gera allt sem í okkar eigin valdi stendur til þess að passa upp á eigin heilsuhreysti og vellíðan. Það tekur enginn frá mér æfingarnar mínar, útiveruna mína, súrefnið mitt, orkuskammtinn minn. Enginn.

Það er misjafnt hvað gefur okkur orku. Hver og einn veit best hvað gefur mest. En við eigum það öll sameiginlegt mannfólkið að við þurfum hreyfingu og ferskt loft til þess að líða vel. Á hverjum degi. Prófaðu að fara – án símans – aðeins út á morgnana, í hádeginu og seinni partinn. Hreyfðu þig, kíktu í kringum þig, njóttu þess að vera frjáls og fá stóran orkuskammt.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. nóvember 2021