Súpuveisla Friðriks V til styrktar Mosverja
Matreiðslumeistarinn Friðrik V galdraði fram kraftmikla kjötsúpu í Álafosskvosinni á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
Ákveðið var að styrkja Mosverja til kaups á nýju eldhúsi í skátaheimilið í Álafosskvosinni.
Hugmyndin kom upp hjá Friðriki V og hjónunum Jóni Júlíusi og Ástu í Álafosskvosinni. „Við höfum verið viðloðandi fiskidaginn mikla frá upphafi en hann hefur nú fallið niður frá því heimsfaraldurinn skall á. Okkur fannst því tilvalið að gera eitthvað skemmtilegt í Mosó og styrkja gott málefni,“ segir Friðrik. „Það kom því upp þessi hugmynd að hjálpa skátunum að safna sér fyrir eldhúsi enda vel við hæfi að elda kjötsúpu til þess í Kvosinni.
Viðtökurnar voru framar björtustu vonum og stemmingin var æðisleg þessa hátíðarhelgi. Veðrið lék einnig við okkur og úr varð frábær nýjung hér á þessum fallega stað.“
Skorar á fyrirtæki að leggja lið
Dagbjört Brynjarsdóttir skátaforingi tekur í sama streng og er himinlifandi með uppátækið. „Við hófum söfnunina með tónleikaröð í vor og með þessari frábæru viðbót erum við komin upp í einn þriðja af eldhúsi,“ segir Dagga en skátarnir fengu alla innkomu sölunnar sem endaði í 724.500 kr.
Friðrik, sem sjálfur er að norðan, fékk styrki frá Norðlenska fyrir kjötinu og hjónin Jón Júlíus og Ásta sköffuðu það sem upp á vantaði eftir að fyrsti skammtur seldist upp á föstudeginum. Allt grænmeti fékkst svo á kostakjörum úr heimabyggð.
Friðrik vill að lokum skora á fyrirtæki í Mosfellsbæ að leggja Mosverjum lið með því að klára eldhúsið í skátaheimilinu.
Það er greinilegt eftir þessa vel heppnuðu súpuveislu að Friðrik og hans fólk hefur ekki sagt sitt síðasta og dreymir um að koma upp matarmarkaði í Álafosskvosinni enda bjóði svæðið upp á mörg tækifæri.