Súkkulaðibombur Sólu Ragnars
Sólveig Ragnarsdóttir hefur lengi haft mikla ástríðu fyrir bakstri og kökuskreytingum. Hún hefur um árabil gert mikil listaverk í alls kyns kökubakstri, bæði fyrir sjálfa sig og vini og vandamenn.
„Þegar fyrsta Covid-bylgjan skall á og starfshlutfallið minnkaði hjá mér þá lét ég loks verða að því að búa til Instagram-síðuna Sóla Ragnars Cakes þar sem ég deili ástríðu minni fyrir kökum og fallegum kökuskreytingum. Þetta hefur verið svona mitt dund í þessum aðstæðum að gera fallegar kökur fyrir vini og ættingja,“ segir Sólveig.
Hefur vart undan eftirspurn
„Það var svo núna í nóvember að ég rakst á þessa skemmtilegu hugmynd að heitum súkkulaðibombum. Þegar ég sá þetta þá hugsaði ég með mér að þarna væru töfrar jólanna í einni kúlu og prófaði að gera eina bombu til að sjá. Það heppnaðist svona líka vel og ég setti á myndband Instagram-síðuna mína en það deildist óvart á Facebook-síðuna mína í leiðinni.
Þá fór ég strax að fá fyrirspurnir frá vinum og ættingjum hvort hægt væri að kaupa súkkulaðibombur af mér. Það er skemmst frá því að segja að ég hef vart undan, ætli ég sé ekki búin að gera hátt í 300 bombur í heildina.“
Tvær stærðir af bombum
Súkkulaðibomburnar koma í tveimur stærðum, sú minni passar í einn bolla en sú stærri í tvo bolla. Þær eru gerðar úr hágæða belgísku súkkulaði. „Skelin sjálf er gerð úr eðalsúkkulaði og inn í skelina er sett kakó og sykurpúðar.
Athöfnin er þannig að þú setur súkkulaðibombuna í bolla og hellir sjóðandi mjólk yfir og þá gerast töfrarnir. Bomban opnast og sykurpúðarnir þjóta upp, svo er bara að hræra vel og njóta súkkulaðibollans,“ segir Sólveig brosandi.
Hægt er að hafa samband við Sólveigu í gegnum Instagram-síðuna hennar ef fólk hefur áhuga.