Stjórnsýsluúttekt og samvinna

Dagný Kristinsdóttir

Nú er rétt ár liðið af kjörtímabili bæjarstjórnar og eru mál farin að þokast áfram og ný að koma fram.
Eitt þeirra er úttekt á stjórnsýslu bæjarins en fleiri en einn flokkur hafði það á sinni stefnuskrá að slík úttekt færi fram. Það eru eðlileg og fagleg vinnubrögð að stokka spilin af og til, skoða hvernig hlutirnir eru gerðir og hvort ekki sé hægt að gera þá enn betur. Um það voru allir flokkar sammála enda var tillagan um stjórnsýsluúttekt samþykkt með 11 atkvæðum.
Mér fannst margt gagnlegt koma fram í úttekt Strategíu og mér fundust margar tillögur bæjarstjóra til stjórnkerfisbreytinga skynsamar. Ég segi bæjarstjóra, því hún lagði fram tillögurnar í nafni og krafti síns embættis en ekki meirihlutans, þó gera megi ráð fyrir að oddvitar hans hafi verið hafðir með í ráðum.

Þó að ég sé jákvæð fyrir mörgu sem fram kom þá hef ég staldrað við nokkur atriði.
Það fyrsta er samtalið. Niðurstöðum úttektarinnar var skilað inn í byrjun apríl. Minnihlutinn fékk niðurstöðurnar afhentar 3. maí kl. 17.02 en kynningarfundur með úttektarfyrirtækinu hafði verið boðaður 4. maí kl. 09.00. Síðari vinnufundur var boðaður 8. maí en engin gögn voru send fyrir þann fund, en á honum voru lagðar fram tillögur bæjarstjóra að skipulagsbreytingum. Málið var svo ekki rætt frekar fyrr en á fundi bæjarráðs 17. maí þar sem þær voru bornar upp til samþykktar og svo endanlega samþykktar á fundi bæjarstjórnar 24. maí síðastliðinn.
Þegar maður fær skjöl með stuttum fyrirvara er maður ekki fær um að spyrja spurninga vegna þess að það hefur ekki gefist tími til að lesa vel yfir gögn fyrir fund.

Ein spurningin sem ég hef er t.d. hvert er hlutverk og starfslýsing væntanlegs sviðsstjóra menningar, íþrótta og lýðheilsu, því við erum ekki með yfirgripsmikinn rekstur íþrótta- eða menningarmannvirkja og vísa í önnur sveitarfélög sem við berum okkur gjarnan saman við.
Ég myndi líka vilja spyrjast fyrir um tillögurnar 74 sem Strategía leggur fram. Á að fara eftir þeim í einu og öllu án frekari skoðunar, ígrundunar eða samtals. Hvaða tillögur eru góðar og henta okkur, hvaða tillögur henta ekki okkar kerfi o.s.frv.
Ég hefði líka viljað fá skýringar á heildarmynd og framtíðarsýninni. Hvert vill bæjarstjórinn og ekki síst meirihlutinn fara með breytingunum. Hvað viljum við fá út úr þeim og hverju eiga þær að skila okkur?
Engin heildaryfirsýn virðist vera til staðar um umfang þessara breytinga og hve mikið þær koma til með að kosta en þegar ákveðið er að fara í úttekt sem þessa liggur ljóst fyrir að það hafi einhvern kostnað í för með sér. Kostnaðurinn hleypur á einhverjum tugum milljóna króna en engin fjárhæð var áætluð í verkið á fjárhagsáætlun þessa árs.

Og að síðustu er það samráðið og samvinnan í þessu verkefni en við vorum öll sammála um að fara í það. Því hefði það verið faglega sterkt í samvinnu og ekki síst stjórnsýslulega að við stæðum öll að niðurstöðunni og tillögunum.
Í ljósi ummæla meirihlutans um breytt vinnubrögð hefði þetta verkefni verið tilvalið til að sýna öllum fram á það að nú séu nýir og breyttir tímar. Og það hefði verið hægt að gera með samtali, vinnufundum og sameiginlegri niðurstöðu allra kjörinna fulltrúa, því við vorum flest ef ekki öll sammála mörgu í úttektinni og hefðum getað talað okkur niður á lausn með stjórnkerfisbreytingar.
Þá hefði ég sem kjörinn fulltrúi ekki setið hjá við afgeiðslu málsins, heldur með gleði greitt breytingunum mitt atkvæði. Þá hefði bæjarstjórinn óskorað umboð allra bæjarfulltrúa til þessa verkefnis og meirihlutinn gæti sett fjöður í hatt sinn fyrir vel unnið verk.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi og oddviti Vina Mosfellsbæjar