Fjölbreyttir búsetukostir í Mosfellsbæ

Anna Sigríður Guðnadóttir

Því miður hefur Mosfellsbær ekki staðið sig sem skyldi hvað varðar uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk á liðnum árum.
Þegar núverandi meirihluti tók við fyrir einu ári síðan var einn búsetukjarni á áætlun, þ.e. búsetukjarni sem Þroskahjálp mun reisa í 5. áfanga Helgafellshverfis og Mosfellsbær síðan reka. Engir aðrir búsetukjarnar voru á áætlun.
Þegar horft er til þess að gera áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fram í tímann er auðvitað nærtækast að horfa til þess fjölda ungra fatlaðra einstaklinga sem þegar býr í sveitarfélaginu og mun, þegar fram líða stundir, að sjálfsögðu þurfa stað til að búa á. Stað þar sem þau fá þjónustu og njóta þess öryggis og sjálfstæðis sem þeim ber.
Í meirihlutasamkomulagi B, S og C lista kemur fram að unnið skuli að áætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk og er undirbúningur þeirrar vinnu þegar hafinn.

Ólafur Ingi Óskarsson

Fjölbreytt byggð
Eitt af mikilvægum verkefnum bæjarstjórnar er að móta sýn um framtíðaruppbyggingu sveitarfélagsins, til lengri og skemmri tíma. Það er sýn okkar og meirihlutans að við uppbyggingu hverfa skuli horft til þess að byggt sé íbúðarhúsnæði sem svarar þörfum sem flestra samfélagshópa. Við deilum þeirri skoðun að til að byggja farsælt samfélag þurfi að gera ráð fyrir að pláss sé fyrir okkur öll.
Eins og margir vita þá er stærstur hluti byggingarlands sem skilgreint er í aðalskipulagi í eigu einkaaðila en ekki Mosfellsbæjar. Sú staðreynd getur flækt uppbyggingaráform bæjarstjórnar á hverjum tíma. Gera þarf uppbyggingarsamninga við handhafa þess lands sem um ræðir t.d. um uppbyggingu innviða eins og skóla og leikskóla en einnig um samsetningu íbúðarkosta, þ.e. hvort ráð sé gert fyrir fjölbreyttum búsetukostum.
Athyglisvert er að í samningum um uppbyggingu Blikastaða, sem gerðir voru undir lok síðasta kjörtímabils, eru fjölbreyttir búsetukostir fyrir mismunandi þjóðfélagshópa ekki meðal ákvæða.

Carlsberg ákvæðið
Í Danmörku var árið 2015 sett nýtt ákvæði inn í skipulagslög sem stuðla átti að blandaðri byggð í landinu. Ákvæðið gengur út á að heimila sveitarfélögum að setja inn kvaðir um fjölbreytta íbúðarkosti á uppbyggingarsvæðum. Umrætt ákvæði gengur undir heitinu Carlsberg ákvæðið og hefur reynst vel.
Hérlendis hefur verið til umfjöllunar sams konar breyting í tengslum við rammasamning innviðaráðuneytis fyrir hönd ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um húsnæðisuppbyggingu frá sumrinu 2022. Lagaákvæðið myndi heimila sveitarfélögum að gera kröfu um að allt að 25% byggingarmagns innan deiliskipulagssvæðis skuli vera fyrir hagkvæmar íbúðir, leiguíbúðir eða aðrar íbúðir sem njóta fjárhagslegs stuðnings ríkis og/eða sveitarfélaga.
Innleiðing slíks ákvæðis myndi til lengri tíma litið auka fjölbreytni á fasteignamarkaði og tryggja fleirum húsaskjól og húsnæðisöryggi. Því miður er ekki að sjá að umrætt lagaákvæði verði afgreitt á yfirstandandi þingi en þá má vona að það verði tekið upp á Alþingi í haust.
Hvort sem ofangreind lagabreyting gengur í gegn á Alþingi eða ekki bíður það meirihlutans sem nú situr í Mosfellsbæ að ganga frá aðgerðaáætlun um uppbyggingu búsetuúrræða fyrir fatlað fólk og að sjá til þess að við skipulag byggðar verði alltaf gert ráð fyrir því að þar geti búið fólk úr flestum tekjuhópum og með mismunandi þjónustuþarfir á öllum æviskeiðum.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Ólafur Ingi Óskarsson, formaður velferðarnefndar