Starfsemi eldri kylfinga blómstrar
Vorið 2022 hófst markviss vinna við að efla og styrkja starfsemi eldri kylfinga Golfklúbbs Mosfellsbæjar og hópurinn GM snillingar 65+ þá stofnaður.
Markmið hópsins er fyrst og fremst að stuðla að betri andlegri og líkamlegri heilsu eldri kylfinga auk þess að efla félagsleg tengsl. Hópurinn hefur aðgang að aðstöðu Golfklúbbsins alla miðvikudagsmorgna, úti á sumrin og inni á veturna. Mikið kapp er lagt í nýta miðvikudagana vel og halda uppi metnaðarfullri dagskrá allan ársins hring.
Félagsmaður ársins
Formaður GM 65+ er Hrefna Birgitta Bjarnadóttir en þess má geta að hún var valin félagsmaður Golfklúbbs Mosfellsbæjar 2022 fyrir vel unnin störf í þágu eldri kylfinga klúbbsins. Það er óhætt að fullyrða að því hafi verið virkilega vel tekið og eru um 180 kylfingar sem taka þátt í starfinu núna. Allir skráðir félagsmenn GM sem eru 65 ára eða eldri geta tekið þátt og nýir félagsmenn bætast stöðugt í hópinn. Ekki er nauðsynlegt að vera með neinn grunn í golfi.
„Við leggjum mikla áherslu á að styrkja félagslega hlutann, sérstaklega hjá þeim sem eru kannski einir eða hafa misst maka”, segir Hrefna Birgitta. Hún bætir við að hópurinn hafi einnig orðið til þess að eldri kylfingar eru ekki eins ragir við að skrá sig í holl á golfvöllinn.
Bætt golftækni eldri kylfinga
Auk heilsueflandi og félagslegra markmiða er einnig unnið að bættri golftækni sem hentar líkamlegri getu og aldri. Boðið er upp á reglulegar púttæfingar og kaffispjall, leikjamót og heimsóknir í aðra klúbba.
Einnig er markmiðið að bjóða upp á einstaklingsmiðaða golfkennslu og mæta hverjum og einum þar sem hann er staddur. GM 65+ hefur síðan frjálsan aðgang í golfherminn miðvikudagsmorgna milli kl. 9 og 11.
Nóg á döfinni í starfinu
Nú fer vetrardagskránni senn að ljúka og sumardagskráin að taka við með aukinni útiveru. Á döfinni er t.d. sumarmót á Hlíðarvelli, leikjadagar í Bakkakoti, vinaferðir á nærliggjandi golfvelli og utanlandsferð svo eitthvað sé nefnt.
Hrefna vill koma á framfæri þökkum til Golfklúbbs Mosfellsbæjar fyrir frábæran stuðning og aðstöðu, einnig hefur Blik stutt starfið með því að gefa félagsmönnum afslátt af veitingum. Eins hafa fyrirtæki í Mosó verið dugleg að skaffa vinninga, s.s. Krónan, GM og Mosfellsbakarí.
Á ársþingi Ungmennasambands Kjalarnesþings sem fram fór á dögunum fékk 65+ starfið hvatningarverðlaun sambandsins.