Snyrtistofan BeautyStar opnar í Sunnukrika
Snyrtistofan BeautyStar opnaði með pomp og prakt á bæjarhátíðinni Í túninu heima en stofan er staðsett í Sunnukrika 3, fyrir aftan Apótekarann.
Það er snyrtifræðingurinn Ágústa Nellý Hafsteinsdóttir sem er eigandi stofunnar en þess má geta að Ágústa er að láta áratugagamlan draum rætast.
„Ég hef starfað í faginu í rúm 20 ár og alltaf langað til að opna mína eigin stofu. Ég er að koma úr krabbameinsveikindum og í þessu veikindaferli þá ákvað ég að nú væri tími til að láta verkin tala og draumana rætast. Ég er í endurhæfingu og ætla mér að sigrast á þessu,“ segir Ágústa sem er í skýjunum með viðtökurnar og segir að fullt hafi verið út að dyrum í opnuninni.
Brúnkusprautun og göt í eyru
„Við bjóðum upp á alla almenna snyrtingu, litun og plokkun, hand- og fótsnyrtingu, vaxmeðferðir, naglaásetningu og fleira. Við bjóðum upp á brúnkusprautun sem ég held að sé nýjung hér í Mosfellsbæ. Við getum sett göt í eyru og í framtíðinni munum við bjóða upp á nudd og ýmsar líkamsmeðferðir.
Við erum í frábæru húsnæði, stofan er 180 fm rúmgóð og björt. Hér er pláss fyrir alla og aðkoman hentar öllum hvort sem fólk notast við hjólastól eða göngugrind.“
20% afsláttur í september
Opnunartilboð BeautyStar er 20% afsláttur á öllum meðferðum sem pantaðar eru í september. „Við erum uppfullar af hugmyndum, nú er opnunartilboðið í gildi og okkur langar að taka þátt í bleikum október með einhverjum hætti þar sem það málefni stendur mér nærri.
Við verðum með sérstakt tilboð á öllum bleikum vörum sem við bjóðum upp á og viljum gefa áfram af okkur til Krabbameinsfélagsins. Svo langar okkur að gera okkar eigið jóladagatal og fleira í þeim dúr. Okkur langar að sjá stofuna okkar vaxa og dafna í takt með bæjarbúum, tökum fagnandi á móti hugmyndum og viljum gera okkar besta til að verða við þörfum og óskum Mosfellinga,“ segir Ágústa að lokum en hægt er að panta tíma í gegnum Noona.is eða í síma 8680844.