Persónuupplýsingar í dreifingu

Kennarinn sem átti hlut að máli þegar persónuupplýsingar um nemendur Lágafellsskóla fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum er farinn í leyfi frá kennslu.
Skólayfirvöld líta málið alvarlegum augum og það er til skoðunar hjá Persónuvernd.
Upplýsingarnar komust í hendur nemanda þegar hann fékk lánaða stílabók til að skrifa í hjá kennara sínum.
Í bókinni, sem kennarinn taldi vera auða, fann nemandinn tvær blaðsíður með upplýsingum um nemendur í 8. bekk. Hann tók myndir af þeim og setti á samfélagsmiðla. Umræddar upplýsingar hafði kennari skráð í minnisbók í kjölfar skilafundar í ágúst þegar árgangurinn var að flytjast milli stiga innan skólans.

Verkefnið fram undan að endurvekja traust
Lísa Greipsson skólastjóri segir að næstu daga verði lögð áhersla á að hlúa að þeim nemendum sem málið snertir með beinum hætti. Hún segir mikilvægasta verkefnið fram undan að endurvekja traust.
Ljóst þykir að skráning, innihald og orðalag minnispunktanna sem ritaðir voru í minnisbókina voru settir fram á ófaglegan hátt og þannig óásættanlegir og óviðeigandi.
Atvikið er harmað og skólinn og skólayfirvöld biðjast auðmjúklega afsökunar.