Skátarnir flytja í nýtt húsnæði

skataralafoss

Skátafélagið Mosverjar er um þessar mundir að flytja í nýtt húsnæði í Álafosskvosinni.
„Við vorum að festa kaup á þessu fína húsnæði að Álafossvegi 18. Við fengum góðan styrk frá Mosfellsbæ og hjálp frá Arion banka. Þetta er fyrsta húsnæðið sem er í eigu skátafélags í Mosfellsbæ, hingað til höfum við verið í húsnæði á vegum bæjarins,“ segir Dagbjört Brynjarsdóttir félagsforingi Mosverja sem er annað stærsta skátafélag á landinu með 150 skátum.
„Við státum af góðu skátastarfi með traustu baklandi, öflugum sjálfboðaliðum og frábærum foreldrum. Við sjáum fram á enn meiri fjölgun núna með svona flottu húsnæði í frábæru umhverfi. Það var farið að þrengja verulega að okkur á gamla staðnum.“

Frábær staðsetning fyir skátastarfið
„Við erum alsæl með staðsetninguna og eigum eftir að nýta okkur vel Stekkjarflötina, Reykjalundarskóginn og það sem Kvosin hefur upp á að bjóða og þá menningu sem hér er.
Við upplifum okkur sérstaklega velkomin hér í Álafosskvosina en margir nágrannar hafa kíkt við og boðið okkur velkomin.“
„Starfið hjá okkur byrjar mánudaginn 12. september og erum við spennt að byrja starfsemina. Það er sérstaklega góður andi í húsinu. Upplýsingar um fundatíma og aldursbil er hægt að finna á heimasíðu Mosverja og Facebook-síðu okkar. Við hvetjum alla til að koma og sjá hvað við höfum að bjóða. Skemmtileg áskorun fyrir skemmtilega krakka,“ segir Dagbjört að lokum.