Foreldrar og fótbolti

heilsumolar_gaua_8sept

Við eigum fjóra stráka, ég og Vala. Miðjustrákarnir eru fótboltastrákar, byrjuðu að elta bolta áður en þeir byrjuðu að labba. Annar þeirra er hluti af einum efnilegasta árgangi Aftureldingar. Þeir eru vanir toppbaráttu og við foreldrar þeirra vanir því að horfa á góðan fótbolta. Þeir eru með þeim bestu og keppa reglulega við önnur góð lið. Hinn fótboltaguttinn er líka hluti af efnilegum árgangi. En það hefur ekki gengið jafn vel hjá þeim sem liði þótt einstaklingar í árgangnum séu í landsliðsklassa. Við foreldrar þeirra höfum séð alla flóruna, stóra sigra, stór töp og allt þar á milli.

Elsti guttinn okkar keppti í fótbolta sem strákur án þess að hafa mikinn áhuga á íþróttinni. Fannst skemmtilegast að vera með félögunum og var ekkert að velta úrslitum mikið fyrir sér. Hann fann seinna sína íþrótt, íþrótt án bolta þar sem hæfileikar hans njóta síns. Íþrótt sem veitir honum gleði og ánægju. Ég veit ekki alveg hvar sá yngsti er, en ég ætla að reyna að kynna hann fyrir eins mörgum íþróttagreinum og ég get til þess að tryggja að hann finni þá sem gefur honum mest. Ég hef tilfinningu fyrir því hvaða íþrótt það er, en ætla ekki að segja það í þessum pistli. Vil ekki hafa of mikil áhrif á hann. Hann á að fá að finna sitt sport sjálfur.

Það er hollt fyrir mig sem foreldri að hafa fengið að horfa á fótbolta á öllum stigum í gegnum börnin mín. Hágæðafótbolta þar sem bestu lið landsins spila hvert á móti öðru. Óútreiknanlegan fótbolta sem getur þróast í allar áttir og svo fótbolta þar sem hæfileikar þátttakenda liggja hugsanlega annars staðar en leikgleðin og félagslegi þátturinn er ósvikin og einlæg. Það minnir mann á hvað íþróttir barna snúast um – hreyfingu, heilbrigði, gleði og góðan félagsskap.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. september 2016